„Lægstu laun háskólamenntaðra í landinu“

„Þessir stóru miðlar þurfa bara að átta sig á því …
„Þessir stóru miðlar þurfa bara að átta sig á því að þeir séu ekki einir í heiminum og þeir stjórni ekki hlutunum,“ segir Hjálmar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var ekkert slæmur fundur, þarna fóru fram ágætis umræður en þær skiluðu engri niðurstöðu. Það er auðvitað ömurlegt að þurfa að efna til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun til þess að fá alvöru viðræður um nýjan kjarasamning tíu mánuðum eftir að síðari samningu gekk úr gildi,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ).

Vinnufundi BÍ og Samtaka atvinnulífsins, sem semja fyrir hönd Árvakurs, RÚV, Sýnar og Frétta­blaðsins, lauk á fimmta tímanum í dag en hann hófst um klukkan hálf tvö. Blaðamenn kjósa um vinnustöðvun á morgun.

Samtök Atvinnulífsins birtu nú rétt í þessu samningstilboð sitt til BÍ. „Þar með geta félagsmenn BÍ kynnt sér tilboðið áður en atkvæðagreiðsla um verkfall hefst. Samtök atvinnulífsins telja það mjög mikilvægt og árétta að grundvöllur tilboðsins til BÍ er Lífskjarasamningurinn og þær hækkanir sem felast í honum“, segir í tilkynningu frá Samtökum Atvinnulífsins.

Aðspurður segir Hjálmar að ekkert nýtt hafi komið fram á fundinum. 

„Nei, því miður. Nú er bara atkvæðagreiðsla um verkfall og nú gildir öllu að sýna massífa samstöðu og ég efast ekkert um það að 400.873 krónur í grunnlaun eftir eins árs starf með háskólamenntun það eru lægstu laun háskólamenntaðra í landinu, það er bara þannig.“

Enginn annar fundur hefur verið ákveðinn en óformlega var rætt að fundað yrði á fimmtudag eða föstudag. Hjálmar segir að viðræðum hafi ekki verið slitið. 

„En eins og ég segi þá er málið grafalvarlegt, ég dreg ekkert úr því, þess vegna erum við að greiða atkvæði um vinnustöðvum á morgun.“

Kröfugerð gæti hækkað vegna vinnustöðvunar

Í dag samdi BÍ við blaðamenn Birtíngs. Á meðal þess sem í honum felst er ein­greiðsla upp á 162 þúsund, 80.000 króna greiðsla á hverju ári vegna sam­nýt­ing­ar á efni í fleiri en ein­um fjöl­miðli, auk­in hlut­deild út­gef­anda í kostnaði blaðamanna vegna tækja­kaupa og hækk­un á grunn­kaupi. 

Hjálmar segir að BÍ geri kröfu um að aðrir blaðamenn fái sambærilega samninga. 

„Ég ætlast til þess að atvinnuveitendur átti sig á því hversu alvarlegt málið er, annars fer þessu bara fram sem horfir. Það er búið að gera samning við Birtíng, við erum í viðræðum við smærri miðla sem ganga vel þannig að þessir stóru miðlar þurfa bara að átta sig á því að þeir séu ekki einir í heiminum og þeir stjórni ekki hlutunum. Ef við þurfum að leggjast í kostnað vegna vinnustöðvana og annað slíkt þá auðvitað breytist kröfugerðin og hækkar bara.“

Í áðurnefndri tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins kemur fram að þau hafi boðið „blaðamönnum kjarabætur sem samrýmast að fullu þeirri launastefnu sem mörkuð var með Lífskjarasamningnum og nú þegar hefur verið samið um við yfir 95% launafólks á almennum vinnumarkaði auk fimm stéttarfélaga innan BHM hjá ríkinu. Fullur vilji hefur verið hjá SA til að leiða viðræðurnar til lykta.“

Samtök Atvinnulífsins ítreka að verkfallsaðgerðir muni valda tjóni. „Öllum má vera ljóst að verkfall mun ekki auka svigrúm fjölmiðla til hækkunar launakostnaðar.“

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert