Samherjamálið til lögreglustjórans á Vestfjörðum

Vegna vanhæfis Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, til þess að fjalla um málefni Seðlabankans og útgerðarfélagsins Samherja hefur málið er varðar meintan upplýsingaleka úr bankanum til Ríkisútvarpsins vegna húsleitar hans hjá félaginu á sínum tíma verið falið embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum.

Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en áður hafði verið greint frá þessu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Kæru Samherja á hendur Seðlabankanum vegna rannsóknar bankans á meintum brotum félagsins á gjaldeyrislögum hafði áður verið vísað til embættis hans af sömu ástæðum.

Vanhæfið stafar af vinatengslum Sigríðar Bjarkar við yfirmann hjá Samherja. Karl Ingi segir í samtali við mbl.is að ljóst sé að þessi mál tengist, en síðara málinu var upphaflega vísað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu af forsætisráðuneytinu í kjölfar rannsóknar innri endurskoðunar Seðlabankans á samskiptunum við ríkisfjölmiðilinn.

Spurður hver staðan sé varðandi kæru Samherja segir Karl Ingi að enn sé verið að fara yfir gögn málsins og meta hvort ástæða sé til þess að hefja eiginlega rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert