Þakkaði ungmennum fyrir loftslagsverkföllin

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands á þingi Norðurlandaráðs.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands á þingi Norðurlandaráðs. norden.org/Magnus Fröderberg

„Það er ekki síst vegna baráttu grasrótarhreyfinga, ungmennanna sem hafa staðið vaktina í loftslagsverkföllum, umhverfisverndarsamtaka og vísindamanna, að loftslagsmálin eru orðin hluti af meginstraumi stjórnmálanna. Sá árangur sýnir okkur að lýðræðisleg umræða skilar árangri.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á Norðurlandaráðsþingi í Svíþjóð í dag. 

Hún ræddi um mikilvægi þess að stjórnmálamenn byggi ákvarðanir sínar í loftslagsmálum á vísindum og rannsóknum. Samtal þyrfti að verða milli stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka og hagsmunahópa því stjórnmálamenn þyrftu að gera sér far um að hlýða á þá sem eru ósammála manni. 

Stjórnvöld þyrftu ennfremur að vinna að því að „breyta skattlagningu þannig að hún þjóni markmiðum í loftslagsmálum. Það þarf að tryggja að lífeyrissjóðir og sjóðir hins opinbera fjárfesti í grænum skuldabréfum.“

Hún benti á að þetta færi saman. Máli sínu til stuðnings benti hún á að ákvarðanir íslenskra stjórnvalda í þessa átt. Þær fela meðal annars í sér að lengja fæðingarorlof barnafólks sem þýddi minna skutl, lækka álögur á rafhjól, fjárfesta í menntun, rannsóknum og nýsköpun um leiðir til að takast á við loftslagsvána svo dæmi séu tekin.  

„Stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn þurfa að sýna í verki að við erum reiðubúin að takast á við áskorunina um sjálfbært samfélag. Við þurfum að vera reiðubúin að taka djarfar ákvarðanir sem þjóna almannahagsmunum og þjóna framtíðinni,“ sagði hún ennfremur.  

Ræða Katrínar í heild sinni er hér á vef Stjórnarráðs Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert