„Ég myndi sjálf vilja að bréfinu yrði skilað,“ sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, um bréf sem Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur, sendi kirkjuráði í september sem ekki má opna fyrr en ári eftir andlát hans.
Þetta kom fram í Kastljósþætti RÚV í kvöld þar sem rætt var um stöðu þjóðkirkjunnar í ljósi könnunar Gallup um traust til þjóðkirkjunnar sem sýndi að þriðjungur bæri mikið traust til hennar.
Fyrir fjórum árum játaði Þórir að hafa brotið kynferðislega gegn ungri stúlku snemma á sjötta áratug síðustu aldar þegar hann var guðfræðinemi. Spurð um bréfið sagðist Agnes ekki vita hvert innihald bréfsins væri, því ekki væri búið að opna það, en sagði að mögulega yrði því aftur skilað til eigandans.
Árið 2015 var haldinn sáttafundur milli Þóris og konunnar þar sem hann baðst fyrirgefningar á því að hafa misnotað hana. Agnes hélt þann fund. Fram til ársins 2018 sinnti Þórir hinum ýmsu embættisverkum innan kirkjunnar eftir að hann lét formlega af embætti. Það ár bað Agnes Þóri um að taka ekki að sér fleiri athafnir eða þjónustu. Þau voru sammála um það, að sögn Agnesar.
Agnes sagði að nú til dags gegndi fólk ekki embætti prests með þennan bakgrunn. „Ég tel mig hafa sent þau skýru skilaboð,“ sagði hún.
Hjónaband samkynhneigðra bar á góma og vísað var í viðtal við fyrrverandi biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, frá árinu 2006 þar sem hann sagðist ekki vilja „kasta hjónabandinu á sorphaugana“. Agnes var spurð hvort þjóðkirkjan skuldi samkynhneigðum á Íslandi afsökunarbeiðni vegna þeirra. Hún taldi að þjóðkirkjan væri búin að gera þetta upp en jafnframt gæti hún beðist afsökunar fyrir hönd kirkjunnar. Hún tók fram að íslenska þjóðkirkjan hafa verið á meðal þeirra fyrstu af nágrannalöndum okkar sem hafi samþykkt hjónabönd samkynhneigðra.
Í könnuninni kom í ljós sem fyrr segir að um þriðjungur Íslendinga bæri mikið traust til þjóðkirkjunnar. „Það er svipað hlutfall og í fyrra en þá lækkaði það frá fyrri mælingum. Nær þriðjungur ber hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar og um þriðjungur ber lítið traust til hennar,“ segir á vef Gallup.
Agnes sagðist fagna þessari könnun því hún veitti þjóðkirkjunni dýrmætar upplýsingar og myndi hvetja hana til að standa sig enn betur.