Allir níu sálfræðingarnir sem starfa á Reykjalundi segja að framkvæmdastjórn Reykjalundar þurfi að víkja og stjórn SÍBS verði að hætta afskiptum af starfsemi Reykjalundar áður en meiri skaði hlýst af. Sálfræðingarnir hafa allir velt því fyrir sér að segja upp störfum.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sálfræðingum á Reykjalundi.
Þar segir enn fremur að hver dagur sé dýrmætur í þessu samhengi og því lengri sem biðin verði, því meiri röskun verði á gæðum.
„Hætta er á enn fleiri uppsögnum fagfólks með langa reynslu í endurhæfingu og höfum við undirrituð velt þeim möguleika fyrir okkur breytist ástandið ekki,“ segir í yfirlýsingunni.
Fagmennska hafi alltaf verið í fyrirrúmi á Reykjalundi auk starfsánægju og góðs anda. Nú sé önnur staða komin upp og ástandið grafalvarlegt.
„Nýtt skipurit var keyrt í gegn í sumar án aðkomu fagstjórnar eða fagráðs Reykjalundar. Forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga voru reknir án nokkurra fullnægjandi skýringa,“ segir í yfirlýsingunni.
Átta af fimmtán læknum Reykjalundar hafa sagt upp störfum á síðustu vikum.
Sálfræðingarnar segja að núverandi framkvæmdastjórn Reykjalundar virðist ekki hlusta á starfsfólk eða skynja mikilvægi mannauðs til að halda starfsemi gangandi.