Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Borgarleikhúsið og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra til þess að greiða Atla Rafni Sigurðarsyni leikara 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón króna í málskostnað vegna uppsagnar hans í desember 2017.
Málið höfðaði Atli Rafn eftir að honum var sagt upp störfum í Borgarleikhúsinu í kjölfar ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni. Fór hann fram á þrettán milljónir króna í bætur. Þar af tíu milljónir króna í skaðabætur og þrjár milljónir í miskabætur.
Fréttablaðið greindi áður frá niðurstöðunni en lögmaður Atla Rafns, Einar Þór Sverrisson, lagði meðal annars áherslu á það fyrir dómi að umbjóðandi hans hefði átt erfitt með að verja sig gegn ásökununum vegna þess að hann vissi ekki um hvað þær snerust.