Mikil fjölgun hefur orðið á líffæragjöfum hér á landi síðustu ár. Aldarfjórðungur er liðinn frá því líffæragjafir hófust hér og fyrstu árin gengu þær upp og ofan að sögn Kristins Sigvaldasonar, yfirlæknis á gjörgæsludeild. Frá 2015 hefur alger sprenging orðið.
„Ef við framreiknum tölurnar á milljón íbúa þá vorum við áður í 9-10 á ári en eftir 2015 náðum við upp fyrir Spánverja og Ísland varð heimsmeistari í þessu. Síðan þá höfum við verið í hópi bestu þjóða í líffæragjöfum á milljón íbúa. Það verða alltaf sveiflur í þessu en aukningin er töluverð,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Mikil fjölgun ferðamanna hér á landi hefur hjálpað til við þessa þróun. „Þetta fólk veikist líka og lendir í slysum. Það hafa verið nokkrar líffæragjafir úr erlendum ríkisborgurum. Þetta hafa verið ferðamenn frá Evrópulöndum þar sem þetta er vel viðurkennt fyrirbæri. Það munar um hvern einn og einasta líffæragjafa enda getur hver slíkur bjargað allt að sex mannslífum.“