Gufusoðinn þorskur með kartöflum og rúgbrauði var á boðstólum í mötuneyti grunnskóla Snæfellsbæjar, þar sem þau Guðni Th. Jóhannsson forseti Íslands og Eliza Reid eiginkona hans litu við í opinberri heimsókn sinni í bæjarfélaginu í dag. Þau fara nú um byggðir Snæfellsness og heimsækja Grundarfjörð á morgun.
„Við höfum farið víða um hér í dag og eftir samtöl við fólk í dag finnst mér Snæfellingar hafa ástæðu til bjartsýni. Möguleikarnir sem hér bjóðast eru miklir,“ segir Guðni Th. Jóhannesson í samtali við mbl.is. „Snæfellsbær er í grunninn sjávarútvegsstaður en ferðaþjónusta hér er mjög vaxandi. Við sóttum í dag málstofu um áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustunni á svæðinu þar sem margt áhugavert kom fram. Atvinnutækifæri á stað eins og hér þurfa að vera fjölbreytt, svo fólk sem menntar sig fái atvinnu við hæfi. Hér í Snæfellsbæ er fólk sömuleiðis duglegt að leggja rækt við afþreyingu, menningarstarf og listir.“
Í Snæfellsbæ er stór hluti íbúa af erlendum uppuna; fólk til dæmis frá Póllandi og Bosníu og er þáttur þess í atvinnulífi byggðarlagsins stór. „Í þessum bæ er fjölmenning í heiðri höfð,“ segir Guðni. „Hér komum við Eliza fyrir tveimur árum og vorum á fjölmenningarhátíð. Það var gaman þá að samgleðjast með löndum okkar sem eru víða að úr heiminum.“
Forsetahjónin kynntu sér í dag einnig starfsemi sjávarútvegsfyrirtækisins Valafells í Ólafsvík og KG fiskverkunar á Hellissandi. „Það er áhugavert að sjá hve fiskvinnslustöðvarnar eru orðnar háþróaðar með tækibúnaði sem er framleiddur á Íslandi. Slíkt vekur með manni heilbrigt þjóðarstolt,“ segir Guðni Th. Jóhannsson.