Hæstiréttur Íslands staðfesti í morgun dóm Landsréttar í máli Freyju Haraldsdóttur gegn Barnaverndarstofu. Landsréttur komst að því í mars að Freyju, fyrrverandi varaþingmanni Bjartrar framtíðar, hafi verið mismunað vegna fötlunar. Fyrir fjórum árum hafnaði barnavernd umsókn Freyju um leyfi til þess að taka barn í varanlegt fóstur.
Dómsmálið sem rekið var fyrir Hæstarétti eftir að Barnaverndarstofa áfrýjaði niðurstöðu Landsréttar snýst ekki um að umsókn Freyju um að verða fósturforeldri hafi verið hafnað heldur að hún eigi rétt á hefðbundnu matsferli áður en sú ákvörðun er tekin.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað kröfum Freyju um að fella úr gildi úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá 6. júní 2016 þar sem staðfest var ákvörðun Barnaverndarstofu frá nóvember 2015 um synjun á umsókn Freyju um leyfi til þess að taka barn í fóstur.
Freyja taldi sig ekki hafa notið sömu málsmeðferðar og ófatlaðir við umsókn sína um að gerast fósturforeldri. Var henni m.a. neitað um að sækja námskeiðið Foster Pride sem er haldið á vegum Barnaverndarstofu ætlað áhugasömum fósturforeldrum, en umsækjendum um að taka barn í fóstur er skylt að sækja slíkt áður en leyfi er veitt til að gerast varanlegt fósturforeldri.
Aðalmeðferð málsins fór fram í Hæstarétti á miðvikudag og var dómsalurinn þétt setinn, meðal annars af hópi kvenna sem klæddist bleikum bolum sem á stóð: „Ég er fötluð mamma.“
Þetta er í þriðja sinn sem Freyja lýkur aðalmeðferð í málinu en málið var fyrst tekið fyrir í héraðsdómi í júní 2018. Málið hófst hins vegar fyrir fimm árum þegar Freyja sótti um að verða fósturforeldri. Í umsóknarferlinu felst að sækja um leyfi til barnaverndar og hafnaði stofnunin umsókn Freyju um að taka barn í varanlegt fóstur árið 2015.
Freyja er ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðra og lagði hún til að mynda fram frumvarp árið 2015 um bann við mismunun og réttindi fatlaðs fólks. Einnig barðist hún fyrir innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir fatlað fólk.