Heildarkostnaður við byggingu þrjátíu og tveggja íbúða fjölbýlishúss við Gerplustræti 2-4 í Mosfellsbæ er orðinn meira en 300 milljónum hærri en hann var áætlaður í upphafi. Verktakinn sem hóf verkið fór í þrot og félagið sem hélt utan um húsbygginguna er einnig á leið í þrot.
Kaupendum íbúða er nú sagt að þeir þurfi að greiða lokagreiðslu og fá afsal afhent til þess að vera öruggir um að tapa ekki því fé sem þeir hafa þegar lagt í íbúðakaupin.
Íbúar hafa margir beðið afhendingar í næstum eitt og hálft ár, en þeim var lofað að hægt yrði að flytja inn í húsið í apríl í fyrra. Örfáir eru þegar fluttir inn, hafa gefist upp á biðinni, en aðrir eiga að geta fengið eignirnar afhentar tilbúnar núna um mánaðamót, þó að framkvæmdum við sameign og bílakjallara verði ekki lokið.
Þetta segir í bréfi til íbúa frá fjölmiðla- og athafnamanninum Ásgeiri Kolbeinssyni, nýjum stjórnarformanni félagsins sem heldur utan um húsbygginguna. Hann er einn þeirra sem eiga hlut í félaginu, Gerplustræti 2-4 ehf., í gegnum félag sem heitir Burður Invest.
Stundin fjallaði fyrst miðla um þann drátt sem hafði orðið á verkefninu, strax í nóvember í fyrra. Voru vandræðin þar rakin til vanskila sem fasteignafélagið hefði ratað í, en ekki gjaldþrots verktaka eins og segir í bréfi Ásgeirs.
Í frétt Stundarinnar kom einnig fram að Orri Guðmundsson lögmaður væri stærsti eigandi Burðar Invest með rúmlega 49% hlut, en fjöldi minni fjárfesta kæmi einnig að félaginu. Í þeirra hópi eru knattspyrnukapparnir fyrrverandi Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir og Gylfi Einarsson, auk Ásgeirs Kolbeinssonar.
Ásgeir tók við stjórnarformennsku félagsins í sumar eftir að Sturla Sighvatsson, sem hafði verið í forsvari fyrir verkefnið og er fyrrverandi framkvæmdastjóri leigufélagsins Heimavalla, sagði sig úr stjórninni.
Þá kom fram í frétt Stundarinnar að Arion banki væri helsti lánadrottinn verkefnisins, með rúmlega 680 milljóna króna lán á 1. veðrétti. Aðrir stærstu veðhafar eru félagið Arctic Capital sem lánaði 150 milljónir til verksins og félagið Leiguafl sem er í eigu Kristrúnar S. Þorsteinsdóttur, eiginkonu Sigurjóns Þ. Árnasonar, sem er fyrrverandi bankastjóri Landsbankans.
Staða félagsins er ljóslega hörmuleg, en Ásgeir lýsir því í bréfinu til kaupenda að hún sé „svo slæm að jafnvel þótt allar íbúðirnar verði greiddar upp í topp eftir fyrirmælum allra þeirra kaupsamninga, sem gerðir hafa verið, þá nægir það ekki til greiðslu áhvílandi veðskulda.“
„Raunveruleikinn er því sá að aðrir kröfuhafar félagsins en veðhafar fá ekkert greitt við skipti á þrotabúi félagsins og veðhafar á aftari veðréttum munu ekki fá kröfur greiddar. Sumir alls ekki og aðrir aðeins að hluta,“ skrifar Ásgeir, sem segist einnig hafa komist að því eftir að hann steig inn í stjórnina að félagið væri aðili að tveimur dómsmálum vegna meintra skulda og að ein stefna hafi borist frá því að hann tók sæti í stjórn félagsins í sumar.
Ásgeir segir að hann geti ekki með góðri samvisku gefið félagið upp til gjaldþrotaskipta nema kaupendum verði gefinn kostur á að ljúka við kaup sín og fá afsal útgefið.
Skilaboðin sem íbúar fá nú frá Ásgeiri eru á þá leið að ef íbúðakaupendur ljúki ekki við afsalsgreiðslu samkvæmt kaupsamningi gætu þeir átt það á hættu að missa allt það fé sem þeir hafi sett í kaupin nú þegar.
Um leið er kaupendum gert það ljóst að félagið muni ekki geta orðið við kröfum um skaðabætur eða afslátt af kaupverði vegna þessara miklu tafa sem orðið hafa á afhendingunni. Þó segist félagið ætla að draga þau fasteignagjöld og iðgjöld lögboðinnar brunatryggingar sem fallið hafa á kaupendur frá afsalsgreiðslunni.
„Allir veðhafar hafa skuldbundið sig til þess að aflétta veðskuldum af seldum eignum samhliða útgáfu afsals, enda verði ekki um að ræða aðra og meiri eftirgjöf af kaupverði en lýst er hér að framan,“ segir í bréfi Ásgeirs.
Þetta þýðir að kaupendur þurfa í raun að sætta sig við að fá engar bætur, nema endurgreiðslu fasteignagjalda og iðgjalda brunatryggingar, vegna þeirra gríðarlegu tafa sem hafa orðið á verkinu. Það er, ef þeir ætla að vera vissir um að tapa ekki því fé sem þegar hefur verið lagt út vegna kaupanna.
Ásgeir tekur þó fram í bréfinu að virði íbúðanna hafi aukist nokkuð á þeim langa tíma sem liðinn er frá því að skrifað var undir kaupsamninga – eða um það bil 50.000 kr. á fermeter.
Það breytir því ekki að kurr er meðal kaupenda vegna þessara skilaboða, samkvæmt einum úr þeirra hópi sem blaðamaður ræddi við. Hafa kaupendur þegar leitað liðsinnis lögmanna, sem hvetja þá til þess að anda með nefinu og fara ekki í að greiða afsalsgreiðslu nema að vel athuguðu máli.
„Maður er bara orðinn svo ógeðslega langþreyttur á þessu. Maður er bara andlega búinn. Það eru fimmtán mánuðir síðan ég átti að fá lyklana í hendurnar og við áttum að flytja inn og skála í kampavíni. Fimmtán mánuðir. Og nú fáum við þetta bréf!“ segir kaupandi á fertugsaldri, sem vildi ekki láta nafns síns getið.
Kaupandinn, sem fékk bréfið í gær, segir að lögmaður sinn túlki bréfið sem svo að veðhafar, þar á meðal Arion banki, séu að reyna að þvinga kaupendur til að afsala sér lögbundnum rétti sínum til skaðabóta, sem þeir eigi rétt á vegna þeirra miklu tafa sem orðið hafa á afhendingu íbúðanna.
Ásgeir hvetur kaupendur til þess að fara vel yfir stöðuna og veita svör fyrir 1. desember næstkomandi.
„Kaupendur eru hvattir til þess að fá óháða sérfræðinga til þess að meta réttarstöðu sína í ljósi efnis tilkynningar þessar (sic) og láta þá fasteignasölu sem hafði milligöngu um kaupin vita fyrir 1. desember n.k., hvort þeir vilji ganga að þeim skilmálum sem lýst er hér að framan. Undirritaður telur að óbreyttu ekki verjandi annað, en að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta eigi síðar en í byrjun næsta árs og því er nauðsynlegt að öllum ráðstöfunum vegna kaupanna verði lokið á þeim tíma í tilfelli þeirra sem að framangreindum skilmálum ganga,“ segir í bréfi Ásgeirs, sem langþreyttir kaupendur íbúða að Gerplustræti 2-4 velta nú vöngum yfir.