Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kveðst aðspurður hafa átt frumkvæði að því að afhenda upplýsingar um samskipti fyrrverandi starfsmanna bankans við Ríkisútvarpið.
Vikið hafi verið að þessum samskiptum í bréfaskriftum Seðlabankans við forsætisráðuneytið í ágúst síðastliðnum.
„Ég lét setja bréfin til forsætisráðuneytisins fram sem hluta af málsskjölum sem Seðlabankinn lagði fram í tengslum við skaðabótamálið. Síðan hringdi ég í Þorstein Má [Baldvinsson, forstjóra Samherja] og skýrði honum frá því að hann gæti gengið að þessum bréfum sem hluta af gögnum málsins – og ég teldi það skyldu mína að upplýsa hann um þetta,“ segir Ásgeir um afstöðu sína til málsins í Morgunblaðinu í dag.