„Skynsamt fólk leitar ekki að vandræðum“

„Ef við værum vinsæl þá værum við ekki að vinna …
„Ef við værum vinsæl þá værum við ekki að vinna vinnuna okkar. Við eigum að vera óvinsæl, veita aðhald og brydda upp á hlutum sem geta verið erfiðir,“ segir Hjálmar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta gefur okkur byr undir báða vængi og sýnir bæði hve mikil samstaða er í stéttinni og mikil óánægja með kjörin,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands um niðurstöður kosninga vegna vinnustöðvunar blaðamanna.

Blaðamenn samþykktu í dag að fara í verk­fall með afgerandi meirihluta eða 83% greiddra atkvæða.  

„Okkur finnst ótrúlegt að hafa þurft að ganga svona langt og þurfa mögulega að ganga enn lengra til þess að fá viðtalsbil við þetta fólk sem stjórna þessum fyrirtækjum og hefur engan skilning á þessari mikilvægu stétt sem vinnur hjá þeim,“ segir Hjálmar.

Vinnu­stöðvan­irn­ar ná til blaða-, frétta- og mynda­töku­manna hjá Árvakri, sem gef­ur út Morg­un­blaðið og mbl.is, Rík­is­út­varp­inu, Sýn, sem rek­ur frétta­stofu Vís­is, Stöðvar 2 og Bylgj­unn­ar, og Torgi, sem gef­ur út Frétta­blaðið og sam­nefnda vefsíðu.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að verkföllin muni hafa áhrif segir Hjálmar:

„Miðað við hvernig þetta hefur gengið hingað til þá er ég ekki bjartsýnn. Það hlýtur einhvern veginn einhvern tímann að koma einhver glóra hinu megin, ég reikna með því. Skynsamt fólk leitar ekki að vandræðum heldur reynir að leysa þau.“

Kjörnefnd Blaðamannafélags Íslands telur kjörseðla þar sem greidd voru atkvæði …
Kjörnefnd Blaðamannafélags Íslands telur kjörseðla þar sem greidd voru atkvæði um verkföll blaðamanna. mbl.is/Hari

Hjálmar segist ánægður með niðurstöðurnar enda séu þær mjög afgerandi. „Ég hefði orðið mjög óánægður ef þetta hefði farið undir 80% og helst hefði ég viljað að þetta hefði verið samþykkt með 90% atkvæða. Þetta er frábær niðurstaða og það sem við höfum skynjað í samninganefndinni á vinnustöðunum. Við erum ekki að tala eitthvað út í loftið. Við erum með þetta bakland og baklandið er alveg grjóthart og við munum fylgja þessu eftir. Ég segi ein og Grettir sterki segir í Grettissögu: „Ef vel er róið í stafni mun skuturinn ekki eftir liggja.““

Verkföll sem skaða miðlana minna

Hjálmar segir að ekki sé búið að boða næsta samningafund. 

„Ríkissáttasemjari hefur stjórn á þessum viðræðum. Ef hann telur ástæðu til að boða til fundar þá mætum við að sjálfssögðu til fundar. Við erum alltaf tilbúin til þess að ræða leiðir til þess að leysa þessa deilu. Blaðamönnum finnst gaman í vinnunni, þeim finnst ekki gaman að standa í svona deilum en að sjálfssögðu þurfa þeir að standa með sjálfum sér og hafa efni á því að geta unnið þessa vinnu og sinnt þessu áhugamáli sínu sem blaðamennska sannarlega er.“

Greidd voru at­kvæði um fjór­ar vinnu­stöðvan­ir í næsta mánuði og er sú fyrsta fyr­ir­huguð föstu­dag­inn 8. nóv­em­ber. Verk­fallsaðgerðirn­ar verða  á föstu­dög­um í nóv­em­ber­mánuð og taka ein­göngu til net­miðla og ljós­mynd­ara og töku­manna í fyrstu þrem­ur skipt­un­um og leng­ist um fjór­ar klukku­stund­ir í hvert skipt.

„Þetta er það sem virkar, þetta er það sem skaðar miðlana minna en ella en kemur samt okkar boðskap á framfæri. Ég ber virðingu fyrir þessu upplýsingakerfi og við erum auðvitað líka fjórða valdið og þurfum að passa það að það sé upplýsingastreymi í þessu landi. Við þekkjum það frá 1984 þegar landið lokaðist algjörlega. Það má auðvitað ekki gerast, ekkert frekar en að lögreglan leggi niður störf eða spítalarnir.“

Hjálmar telur að almenningur standi við bakið á blaðamönnum. 

„Ég held að almenningur standi alveg 100% með blaðamönnum, ég finn það bara á förnum vegi. Það hefur fullan skilning á því þó blaðamenn séu ekki endilega vinsælasta stéttin enda eigum við ekki að vera vinsæl. Ef við værum vinsæl þá værum við ekki að vinna vinnuna okkar. Við eigum að vera óvinsæl, veita aðhald og brydda upp á hlutum sem geta verið erfiðir. Ég held að almenningur hafi skilning á því.“

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka