Sýknudómur vegna bílakjallara staðfestur

Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem félagið Reykjavík Development ehf. var sýknað af kröfu Íslenskra aðalverktaka um skaðabætur vegna byggingar bílakjallara á lóðinni að Austurbakka 2 þar sem Harpa er til húsa.

Skaðabótakrafa Íslenskra aðalverktaka byggðist á því að Reykjavík Development hefði ekki virt rétt félagsins til verktöku við byggingu bílakjallara á byggingarreitum 1 og 2 á lóðinni. Var krafan aðallega reist á því að með rammasamningi 9. mars 2006 hefði stofnast til kvaðar á lóðarréttindum í formi réttar til verktöku sem síðari framsalshafa lóðarréttindanna hafi verið skylt að virða.

Varakrafa byggðist á því að með samningum Reykjavík Development um kaup á lóðarréttindunum hafi félagið, vitandi um rétt Íslenskra aðalverktaka til verktöku við væntanlegar framkvæmdir á lóðinni, samþykkt að taka umrædda skuldbindingu yfir.

Kröfuréttindi en ekki hlutbundinn réttur

Fram kemur í dómnum að úrlaust málsins réðist af því hvort réttindin sem rammasamningurinn kvað á um gætu í eðli sínu talist hlutbundin réttindi og hvort ætlun samningsaðilanna hefði þá verið að stofna til slíkra hlutbundinna réttinda. Vísað er til þess að í rammasamningnum hefði ekki verið tilgreint sérstaklega að samningsaðilar teldu að um væri að ræða eignarréttarlega kvöð.

Viðaukasamningar hefðu enn fremur frekar borið þess merki að um kröfuréttindi hefði verið að ræða. Taldi Hæstiréttur því að réttindin sem rammasamningurinn kvað á um fullnægðu ekki því skilyrði að geta í eðli sínu talist hlutbundinn réttur yfir fasteign heldur fælist í réttinum kröfuréttindi í gagnkvæmu skuldarsambandi.

Þá var vísað til þess að við kaup Reykjavík Development á byggingarreitunum hafi félagið ekki samþykkt að taka á sig þá skuldbindingu að virða rétt Íslenskra aðalverktaka til verktökunnar. Þannig hafi ekki orðið af skuldskeytingu og því ekki skipt máli þótt Reykjavík Development hafi við kaup sín vitað eða mátt vita um rétti Íslenskra aðalverktaka til verktökunnar samkvæmt rammasamningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka