Verkföll gætu skaðað samfélagsumræðu

Þórir (t.v.) segir að landið megi ekki verða fréttalaust eins …
Þórir (t.v.) segir að landið megi ekki verða fréttalaust eins og gerðist fyrir 40 árum. Jón (t.h.) segir augljóst að verkföll gætu skaðað fjárhag fjölmiðla.

Þórir Guðmundsson, ritstjóri fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, segir í samtali við mbl.is að fyrirhuguð verkföll blaðamanna setji samfélagsumræðu hérlendis í hættu. Ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þóris­son, telur að verkföllin muni hafa slæm áhrif á fjárhag fjölmiðla í landinu. 

„Það er sérstaklega vont þegar blaðamenn fara í verkföll því að það varðar umræðu í landinu og lýðræðið. Það má ekki gerast á neinn hátt sem gerðist fyrir um 40 árum að landið verði fréttalaust,“ segir Þórir og heldur áfram:

„Mér sýnist Blaðamannafélagið vera með það í huga að slíkt ástand verði ekki og auðvitað hafa tæknibreytingar gert það að verkum að það er eitthvað sem verður varla. Það sem blaðamenn gera er að halda uppi umræðu og fréttaflutningi sem fólk getur treyst. Ef þetta snýst upp í það að fréttamenn fari í einhver allsherjarverkföll eins og þeir gætu auðvitað gert þá getur það auðvitað orðið mjög skaðlegt fyrir fréttaflutning og umræðu í landinu.“

Gætu haft neikvæð áhrif á rekstur

Blaðamenn samþykktu vinnustöðvanir í dag með af­ger­andi meiri­hluta eða 83% greiddra at­kvæða.  

Vinnu­stöðvan­irn­ar ná til blaða-, frétta- og mynda­töku­manna hjá Árvakri, sem gef­ur út Morg­un­blaðið og mbl.is, Rík­is­út­varp­inu, Sýn, sem rek­ur frétta­stofu Vís­is, Stöðvar 2 og Bylgj­unn­ar, og Torgi, sem gef­ur út Frétta­blaðið og sam­nefnda vefsíðu. Samtök atvinnulífsins semja fyrir hönd fyrrnefndra fjölmiðla.

Bæði Þórir og Jón vona að Blaðamannafélag Íslands og Samtök Atvinnulífsins nái að semja um kjör blaðamanna áður en til verkfalla þurfi að koma. Fyrsta verkfallið er áætlað á föstudag í næstu viku. 

„Það má reikna með því að verkföllin hafi neikvæð áhrif á okkar rekstur,“ segir Jón aðspurður.

„Það segir sig sjálft að þegar svona hópar leggja niður störf, þó í afmarkaðan tíma sé, að þá hefur það áhrif á framleiðsluna sem er í gangi á hverjum degi. Það má alla vega segja að verkföll séu ekki til þess fallin að tryggja fjárhagslega stöðu fjölmiðla í landinu.“

Þórir hefur minni áhyggjur af fjárhagslegu hliðinni. 

„Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af fréttaflutningi í landinu, ég hef miklu minni áhyggjur af rekstrinum, alla vega til skemmri tíma þó þetta geti auðvitað haft áhrif ef þetta heldur áfram.“

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka