80 starfsmenn KPMG fengu niðurgangspest

Skrifstofa KPMG.
Skrifstofa KPMG. mbl.is/Ófeigur

Hátt í áttatíu starfsmenn endurskoðandafyrirtækisins KPMG fengu niðurgangspest sl. föstudag, daginn fyrir árshátíð fyrirtækisins. Engin haldbær skýring hefur fundist á faraldrinum en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að líklega hafi um nóróveiru verið að ræða.

„Já þetta kom upp og við urðum vör við þetta á föstudaginn. Þegar við fórum að skoða málið þá fannst okkur þetta vera svolítið mikið þannig ég hafði samband við landlækni, eins og okkur ber að gera, en þá var þetta um garð gengið,“ segir Andrés Guðmundsson, starfsmannastjóri KPMG, í samtali við mbl.is.

Sýkingin gekk yfir um síðastliðna helgi og á mánudeginum var fólk hætt að veikjast. „Það eru allir komnir til vinnu. Þetta var klárlega eitthvað smit sem varð á milli fólks og svipar til nórósýkingar þó það sé ekki staðfest. Það var ekki hægt að rekja þetta til matvæla eða neins slíks,“ bætti hann við.

Líklega nóróveiran

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir staðfestir í samtali við mbl.is að embætti landlæknis hafi fengið tilkynningu um málið og skoðað það en ekki hafi verið hægt að ná í sýni úr einstaklingum til að staðfesta um hvaða sýkingu hafi verið að ræða.

„Það eru margir sýklar, bakteríur og veirur, sem geta valdið faraldri en þetta hljómar dálítið eins og nóróveiran. Þetta kemur hratt upp og margir veikjast á sama tíma og þar eru faraldrar í samfélaginu þannig það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri nóróveira,“ segir Þórólfur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Mynd/mbl.is

„Við vitum að nóróveiran er bráðsmitandi og það tekur stuttan tíma að veikjast. Fyrir heilbrigða einstaklinga er það nú ekki alvarleg sýking þó hún sé hvimleið á meðan henni stendur. En fyrir lasburða einstaklinga, eins og inni á spítölum og hjúkrunarheimilum, þá getur þetta orðið alvarlegt,“ bætir hann við.

Það getur tekið nokkra daga fyrir verstu einkenni nórósýkingar að ganga yfir en það getur tekið allt að eina til tvær vikur að jafna sig að fullu, að sögn Þórólfs.

Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að hátt í 15% íbúa Hrafnistu í Hafnarfirði hafi greinst með nóróveiruna. Fyrsti einstaklingurinn hafi smitast á mánudaginn og einn hafi veikst í nótt. Þá kom nóróveiran upp á ungbarnaleikskóla í Grafarvogi um miðjan mánuð og var leikskólanum lokað í nokkra daga í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert