Framtíðin kemur ekki bara

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er meðal þeirra sem …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er meðal þeirra sem taka þátt í þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Magnus Fröderberg/norden.org
Framtíðin kemur ekki bara. Við sköpum hana. Þess vegna eru áherslur norrænu ríkjanna á hæfni framtíðar sameiginlegar. Menntun og rannsóknir mynda grunninn að sjálfbærri þróun á vel samþættum Norðurlöndum. Þetta kemur fram í nýrri samstarfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál. 

Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir lagði í gær fram endurskoðaða samstarfsáætlun sína fyrir norrænu ráðherranefndina. Nýja samstarfsáætlunin tekur til tímabilsins 2019—2023 og markmið hennar er að Norðurlöndin verði áfram í fararbroddi á sviði þekkingar og velferðar. 

Frá þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
Frá þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Magnus Fröderberg/norden.org

Framtíðarsýn forsætisráðherranna til 2030 er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Metnaður stendur til þess að samstarf um menntun og rannsóknir stuðli að því að raungera þessa framtíðarsýn og þar með einnig heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.

„Í samfélagi sem breytist ört eru menntun og rannsóknir grundvallarforsendur fyrir jákvæðri þróun. Hér er að finna mörg lykilorð sem snerta það sem þarf til að skapa Norðurlönd morgundagsins. Þetta eru til dæmis orðin þekking, nýsköpun, lýðræðisþátttaka, traust, gegnsæi, jafnrétti, fjölbreytni og sameiginleg gildi sem taka til samþættingar, vellíðunar og velferðar.

Grundvöllur samstarfsins er sveigjanlegt nám frá vöggu til grafar og tekur það lífshlaupsins alls, frá þeim yngstu til hinna elstu. Áhersla er lögð á allt frá grundvallarhæfni til æðri menntunar og fullorðinsfræðslu ásamt tækifærum til þess að læra nýja hluti gegnum allt lífið. Leikskólakennarar, grunnskólakennarar og aðrir kennarar gegna lykilhlutverki í þessu samstarfi af því að þeir vinna að því að undirbúa fólk undir samfélag framtíðarinnar,“ segir í frétt Norðurlandaráðs.  

Oddný G. Harðardóttir er varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
Oddný G. Harðardóttir er varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Johannes Jansson/Norden.org

„Verkefni kennaranna eru þau mikilvægustu í samfélaginu. Þeir búa til framtíðina á hverjum degi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Í norrænu samstarfi er miklum kröftum varið til þess að búa í haginn fyrir hreyfanleika. Hreyfanleiki stuðlar að gagnkvæmri miðlun reynslu og þekkingar og auknum tungumála- og menningarskilningi. Þegar þetta kemur saman skapast tilfinning fyrir samkennd á Norðurlöndum.

Menntamálaráðherrarnir bera ásamt menningargeiranum ábyrgð á tungumálasamstarfinu og ráðherranefndin mun á komandi tímabili vinna að því að greina sameiginlega hagsmuni Norðurlandanna á tungumálasviðinu.

Kolbeinn Óttarsson Proppé alþingismaður situr í Norðu­rlanda­ráði en þar sitja …
Kolbeinn Óttarsson Proppé alþingismaður situr í Norðu­rlanda­ráði en þar sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Johannes Jansson/Norden.org

Rannsóknarsamstarf á að stuðla að þekkingu á alþjóðlegum gæðum og styrk, þekkingu sem byggð er á rannsóknum. Þetta er nauðsynlegt til þess að takast á við þær samfélagsáskoranir sem blasa við.

Þess vegna eru til norrænar rannsóknaráætlanir um allt frá loftslags- og umhverfismálum, heilsu og velferð, samfélagsöryggi og sjálfbærri þróun borga til stafrænna umskipta og menntunar framtíðar.

„Markmið okkar er að rannsóknaráætlanirnar styðji framtíðarsýn okkar til 2030 um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Við eigum að halda áfram að standa undir þeim metnaði sem samstarfið byggir á,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar, á vef Norðurlandaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert