Fyrsta heildstæða löggjöf um uppljóstrara

Klaustur Bar komst í fréttirnar í fyrra fyrir uppljóstrun Báru …
Klaustur Bar komst í fréttirnar í fyrra fyrir uppljóstrun Báru Halldórsdóttur um samtal þingmanna á staðnum. Sú uppljóstrun myndi ekki falla undir ramma laganna verði frumvarpið að lögum. mbl.is/Hari

„Ef þetta verður að lögum yrði þetta fyrsta heildstæða löggjöfin um uppljóstraravernd á Íslandi,“ segir Oddur Þorri Viðarsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu um frumvarp að sérstökum lögum um vernd uppljóstrara.  Oddur heldur erindi á málstofu Þjóðarspegilsins þar sem frumvarpið verður m.a. til umfjöllunar. Fjögur erindi verða haldin á málsstofunni, þrjú þeirra skoða uppljóstrara frá lagalegu sjónarhorni en það síðasta frá sjónarhorni atvinnulífsins og viðskiptahagsmuna fyrirtækja. 

„Það eru dreifð ákvæði í lögunum, til dæmis ákvæði um opinbera starfsmenn og svo ýmis ákvæði, til dæmis ef einhver tilkynnir um brot þá er heimilt að veita honum einhverja sérmeðferð. En það eru engin heildstæð lög til um þetta,“ segir Oddur.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari  tekur í sama streng. „Réttindi uppljóstrara eru mjög lítil. Það er ekkert almennt ákvæði í íslenskum rétti sem mælir fyrir það að hægt sé að falla frá saksókn,“ segir hann. Finnur flytur einnig erindi á málstofunni þar sem hann mun fara yfir stöðuna, vangaveltur og hugleiðingar varðandi uppljóstrara út frá refsirétti og sakamálaréttarfari og frá sjónarhorni ákæruvaldsins.

Oddur Þorri Viðarsson (t.h.) segir engin heildstæð lög til um …
Oddur Þorri Viðarsson (t.h.) segir engin heildstæð lög til um uppljóstrara. Ljósmynd/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Vilja lög sem gilda yfir allt sviðið

Forsaga málsins er sú að hinn 16. júní 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsi. Var ríkistjórninni þar með falið að leita leiða við að tryggja vernd heimildarmanna og afhjúpenda. Árið 2018 skipaði forsætisráðherra nefnd um umbætur á ljöggjöf á sviði tjáningar, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis og varð afraksturinn níu frumvörp sem kynnt voru nú í vor, þar á meðal umrætt frumvarp.

„Sú nefnd tók ákvörðun um að gera lög sem myndu gilda yfir allt sviðið, það er ekki bara um opinbera starfsmenn heldur líka um einkamarkaðinn,“ segir Oddur.

Ætti ekki við um Báru

Eins og kom fram í frétt mbl.is um frumvarpið í vor hefði mál Báru Halldórsdóttur, sem uppljóstraði um samtal þingmanna á Klaustur Bar, ekki fallið undir ramma laganna verði frumvarpið að lögum. Það snýr einungis að því þegar starfsfólk á vinnumarkaði kemur fram með upplýsingar.

Frumvarpið birtist fyrst í Samráðsgáttinni og segir Oddur það enn vera til meðferðar hjá forsætisráðuneytinu. „Þegar og ef frumvarpið verður lagt fram á þingi er ekki víst að það birtist eins og á Samráðsgáttinni.“

Þjóðarspegillinn: Ráðstefna í félagsvísindum verður haldin í 20. sinn í Háskóla Íslands á morgun. Ólafur Jóhannes Einarsson ritari EFTA-dómstólsins flytur einnig erindi á málstofunni sem er ein rúmlega 50 málstofa sem boðið er upp á. Hann „mun greina frá réttarstöðunni um vernd uppljóstrara samkvæmt gildandi rétti, svo og þróun til verndar uppljóstrurum á alþjóðavettvangi,“ er fram kemur á heimasíðu Þjóðarspegilsins. Þá mun Heiðrún Björk Gísladóttir „fjalla um efnið í samhengi við atvinnulífið og viðskiptahagsmuni fyrirtækja.“ Málstofan fer fram í stofu 101 í Lögbergi og hefst klukkan 9:00 á föstudag. Aðgangur er ókeypis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert