Óskar eftir gögnum um mönnun frá Reykjalundi

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. mbl.is/Hari

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vinna nú að því að kalla eftir og vinna úr gögnum frá Reykjalundi um mönnum til að meta hvort að uppsagnir lækna á Reykjalundi ógni þjónustusamning milli Sjúkratrygginga Íslands og Reykjalundar. Þetta segir María Heimisdóttir forstjóri SÍ í samtali við mbl.is.

Níu læknar á Reykjalundi hafa sagt upp störfum síðan í haust og einn verið rekinn. Þar af eru fimm yfirlæknar, að því er kemur fram í frétt RÚV. Þar kemur einnig fram að einungis þrír læknar á stofnunni hafi ekki sagt upp störfum.

„Við erum með samning um að það sé veitt þarna ákveðin þjónusta, meðal annars læknaþjónusta og ef mönnum fer niður fyrir eitthvað ákveðið viðmið er ljóst að það setur samninginn í uppnám. En við erum ekki stödd þar núna,“ segir María spurð að því hver staðan sé.

„Við erum að fá gögn og erum að fara yfir gögn frá Reykjalundi um mönnum, bæði núna og svolítið fram í tímann, til að meta hvort að þetta ógni samningnum,“ bætir hún við.

Hafa Sjúkratryggingar Íslands áhyggjur af því að mönnum sé að fara undir viðmið?

„Ég held að eins og allir landsmenn þá höfum við áhyggjur af þessum erfiðleikum sem að allir vita að eru á Reykjalundi en við erum ekki komin það langt í þessu ferli að við höfum beinlínis áhyggjur af því að mönnum fari undir viðmið,“ segir María að lokum.

Hvorki hefur náðst í Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Reykjalundar, né Ólaf Þór Ævarsson, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, þrátt fyrir tilraunir mbl.is til þess í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert