Ásgeir Karlsson, deildarstjóri greiningardeildar ríkislögreglustjóra, hefur ritað Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra bréf þar sem hann lýsir yfir áhyggjum af framtíð embættisins.
Ráðherra hefur sagt að breytingar á skipulagi lögreglu, þar með talið hjá ríkislögreglustjóra, séu í skoðun. Ásgeir vildi aðspurður ekki ræða málið. Fyrst myndi hann vilja ræða persónulega við ráðherrann.
Morgunblaðið hefur bréfið undir höndum en það var líka sent á alla starfsmenn embættisins. „Ég skrifa þér fyrir hönd yfirmanna hjá embætti ríkislögreglustjóra. Tilefnið er vaxandi uggur í röðum starfsmanna embættisins vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framtíð þess og umræðu á opinberum vettvangi. Að höfðu samráði við aðra deildarstjóra embættisins þykir mér rétt að upplýsa þig um að núverandi staða er íþyngjandi fyrir starfsmenn og við teljum mikilvægt að miðlað verði svo fljótt sem auðið er upplýsingum til þeirra í þeim tilgangi að slá á vaxandi áhyggjur og kvíða í þeirra röðum. Skortur á upplýsingum veldur því að stjórnendur geta ekki svarað spurningum starfsmanna um stöðu mála og hvers megi vænta. Sögusagnir og getgátur um framtíð embættisins og einstakra deilda auka enn á vanlíðan starfsfólks,“ skrifaði Ásgeir m.a.