Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að rödd Íslands hafi sennilega aldrei verið jafn áberandi og nú í alþjóðlegri umræðu, þar á meðal á sviði mannréttinda og loftslagsmála.
„Norðurlöndin voru í fararbroddi þeirra ríkja sem settu umhverfismál og jafnréttismál á oddinn, og barátta okkar í málefnum LGBTI-fólks hefur vakið verðskuldaða athygli. Þessi barátta okkar, ásamt fjölda annarra sem betur fer, hefur fært þessi mál frá jaðri inn á miðju í mörgum samfélögum. Við höfum í gegnum áratugina staðið dyggan vörð um marghliða alþjóðasamvinnu, frið og mannréttindi, lýðræðislegar leikreglur og grundvöll réttarríkisins. Slík barátta er ekki síst mikilvæg nú þegar réttarríkið á undir högg að sækja og falsfréttum er dreift eins og enginn sé morgundagurinn,“ sagði Guðlaugur Þór er hann ávarpaði þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í gær.
„Mér er til efs að rödd Íslands hafi verið áður jafn áberandi og nú er. Þá er ég ekki bara að vísa til þessa heldur einnig veru okkar í Mannréttindaráðinu, segir Guðlaugur í samtali við blaðamann mbl.is í Stokkhólmi og nefnir þar að auki formennsku Íslands í norðurskautsráðinu, norrænu ráðherranefndinni, Eystrasaltssamstarfi og víðar.
Ísland hefur vakið athygli á vettvangi mannréttindamála undanfarin misseri og Ísland ratað ítrekað í alþjóðlega fjölmiðla vegna þess. Ekki síst í gegnum veru Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
Ísland hefur ekki áður átt aðild að Mannréttindaráðinu en önnur norræn ríki hafa verið í samvinnu um aðild og skipst á. Guðlaugur Þór hefur lagt það til við starfssystkini sín annarsstaðar á Norðurlöndum að Ísland verði hluti af því samstarfi og var vel tekið í þá hugmynd.
„En þrátt fyrir að við sitjum ekki lengur í ráðinu munum við taka virkan þátt í starfi þess. Ég er fyrsti íslenski utanríkisráðherrann sem hefur ávarpað ráðið og ég mun að sjálfsögðu halda því áfram og vona að þeir sem á eftir mér koma muni halda því áfram.
Því rödd Íslands skiptir gríðarlega miklu máli og viðbrögðin mikil. Þegar við förum úr ráðinu getum við verið mjög stolt af okkar verkum. Málefni Sádi-Arabíu hafa til að mynda aldrei áður verið tekin upp í Mannréttindaráðinu fyrr en við Íslendingar höfðu þar forgöngu um. Það er ánægjulegt að ríki eru tilbúin til þess að fylgja þessu eftir sem við lögðum upp með. Við gagnrýndum Venesúela og Filippseyjar svo dæmi séu tekin. Stóra línan hjá okkur var þessi: þau ríki sem sitja í Mannréttindaráði eiga að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég held að það sé enginn skilningur á því, vonandi ekki, að þau ríki sem sitji í Mannréttindaráði og jafnvel stýra því, séu með allt í ólestri heima hjá sér. Þetta hefur verið línan hjá mér allt frá fyrsta degi og hefur fengið góð viðbrögð hjá flestum fyrir utan þá sem við höfum gagnrýnt,“ segir Guðlaugur Þór.
Að hans sögn hafa mannréttindasamtök hrósað mjög framgöngu Íslands í Mannréttindaráðinu.
„Við erum lítil þjóð en við höfum áhrif ef við undirbyggjum okkar málstað vel. Okkar ber siðferðisleg skylda til þess að breiða það út sem okkur finnst fullkomlega sjálfsagt. En það er líka gott að hafa það í huga að mannréttindi eru ekki alltaf sjálfsögð og ef okkur finnast hlutirnir séu sjálfsagðir þá er hætta á að við missum sjónar á því og hættum að hugsa um það,“ segir Guðlaugur Þór.
„Þetta er viðurkenning fyrir okkar starf á þessum vettvangi.Tillaga mín um að halda áfram með Stoltenberg-vinnuna var samþykkt á fundi ráðherranna í Borgarnesi nýverið. Sömuleiðis að við myndum klára uppleggið og hver myndi leiða þetta verkefni hér í Stokkhólmi. Það er ekki bara ánægjulegt að finna fyrir samstöðunni milli ráðherranna þegar kemur að tillögu okkar heldur líka samstöðinni með Björn Bjarnason hjá þingmönnum, bæði forsætisnefndinni og í umræðum í þingsal hér á þingi Norðurlandaráðs, segir Guðlaugur.