Íslenskar konur eiga stóran hlut í velgengni þriggja af stærstu bíómyndum ársins í Hollywood. Hildur Guðnadóttir tónskáld samdi tónlistina í stórmyndinni Joker sem er á hvers manns vörum þessa dagana. Myndin er sem stendur í sjöunda sæti yfir vinsælustu myndir ársins sé horft til aðsóknar.
Heba Þórisdóttir förðunarmeistari gefur Hildi ekkert eftir. Hún er titluð yfirmaður förðunardeildar í tveimur stórmyndum í ár. Eins og áður er Heba náinn samstarfsmaður hins vinsæla leikstjóra Quentins Tarantino og stýrir förðuninni í nýjustu mynd hans, Once Upon a Time in Hollywood. Hún hafði sama hlutverk í stórmyndinni Captain Marvel sem er fjórða stærsta mynd ársins. Myndin vakti athygli fyrir það að vera fyrsta ofurhetjumyndin með kvenhetju í aðalhlutverki sem tók inn yfir eina milljón dollara í miðasölu. Heba sá einmitt sérstaklega um förðun aðalpersónunnar sem Brie Larson lék.
Þegar rýnt er í þær myndir sem Íslendingar hafa komið nálægt í Hollywood á liðnum áratug kemur í ljós hversu ótrúlegir peningar eru þar að baki. Í yfirferð um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur í ljós að umræddar myndir hafa tekið inn vel yfir eitt þúsund og þrjú hundruð milljarða íslenskra króna.