„Þetta eru manneskjur, ekki bara vinnuafl“

Ljósmynd/Aðsend

Ef inn­flytj­end­ur eru ekki tengd­ir við sam­fé­lagið og þeir ekki boðnir vel­komn­ir skap­ast fé­lags­leg vanda­mál sam­bæri­leg þeim sem Dan­mörk, Svíþjóð og Þýska­land kljást enn við. Þetta seg­ir Hein de Haas, pró­fess­or í fé­lags­fræði við Há­skól­ann í Amster­dam og aðal­fyr­ir­les­ari Þjóðarspeg­ils­ins sem hefst á morg­un. 

Haas er pró­fess­or í fé­lags­fræði við Há­skól­ann í Amster­dam. Hann flyt­ur er­indið „In­ternati­onal Migrati­on: Myths and Facts“ í Hátíðarsal Há­skól­ans klukk­an 9.30 á morg­un.

Í fyr­ir­lestr­in­um mun Haas setja er­lent starfs­fólk á Íslandi í alþjóðlegt sam­hengi.

„Ég held að það sé skýrt að stærst­ur hluti bú­ferla­flutn­inga er drif­inn af efna­hags­leg­um ástæðum. Ísland hef­ur staðið frammi fyr­ir mikl­um vexti á síðustu árum sem kall­ar á meira vinnu­afl. Það eru sterk tengsl á milli efna­hags­legs vaxt­ar og inn­flutn­ings fólks.“

Vinnu­veit­end­ur þrýsti á fólks­flutn­inga

Spurður hvort inn­flutn­ing­ur vinnu­afls geti haft nei­kvæð áhrif á sam­fé­lagið seg­ir Haas:

„Hafa ber í huga að þetta eru mann­eskj­ur, ekki bara vinnu­afl. Mis­tök­in sem eru gjarn­an gerð er að horfa ein­ung­is til þess að landið þurfi vinnu­afl en auðvitað þarf að taka með í reikn­ing­inn að þarna er um mann­eskj­ur að ræða.“

Haas bend­ir á að sam­fé­lög séu gjarn­an ekki til­bú­in fyr­ir þann fólks­fjölda sem efna­hags­upp­gang­ur kall­ar á.

„Það sem ger­ist oft er að vinnu­veit­end­ur og fyr­ir­tæki þrýsta á yf­ir­völd til að fleira fólki sé hleypt inn í landið. Auðvitað er það mikið hags­muna­mál fyr­ir vinnu­veit­end­ur að hafa nóg af fólki sem get­ur unnið fyr­ir þá en sem sam­fé­lag þá þurfa lönd að gera sér grein fyr­ir því að þarna er um mann­eskj­ur að ræða, mann­eskj­ur sem koma gjarn­an með fjöl­skyld­ur sín­ar.“

Fólk setj­ist oft að

Haas seg­ir að sag­an sýni að fólk sem flyt­ur út fyr­ir heimalandið í leit að vinnu setj­ist gjarn­an að í þeim lönd­um sem það sótti sér vinnu í. 

„Það er mik­il­vægt að ímynda sér ekki að fólk komi ein­ung­is tíma­bundið hingað til lands vegna þess að sag­an seg­ir okk­ur að svo sé ekki. Sam­fé­lagið þarf að vera und­ir­búið fyr­ir það að fólk sem kem­ur hingað sem er­lent vinnu­afl setj­ist hér að. Við höf­um séð stór­ar breyt­ing­ar í evr­ópsk­um fólks­flutn­ing­um og Evr­ópu­sam­bandið hef­ur reynt að opna enn frek­ar á fólks­flutn­inga inn­an Evr­ópu og Ísland verður líka fyr­ir áhrif­um af því þar sem það er inn­an EES.“

Haas seg­ir að Íslandi hafi tek­ist nokkuð vel upp í sín­um inn­flytj­enda­mál­um.

„Það er erfitt að segja hvort inn­flutn­ing­ur vinnu­afls sé já­kvæður eða nei­kvæður því ef stefn­an í þess­um mál­um er ekki út­hugsuð eða ef þú ger­ir ráð fyr­ir því að fólk dvelji ein­ung­is á land­inu tíma­bundið þá mun það koma þér í opna skjöldu að raun­in sé ekki sú. Fólk end­ar gjarn­an á því að setj­ast að og sam­fé­lagið þarf að vera und­ir­búið fyr­ir það. Eins og ég sé það þá hef­ur Íslandi gengið nokkuð vel í að tengja inn­flytj­end­ur við sam­fé­lagið,“ seg­ir Haas.

„Á meðan rétt­indi inn­flytj­enda eru virt þá geta fólks­flutn­ing­ar verið mjög já­kvæðir fyr­ir sam­fé­lagið,“ bæt­ir Haas við. 

Inn­fædd­ir neita störf­um sem skilja eft­ir skarð

Hann tel­ur óumflýj­an­legt að fólk flytji á milli landa í leit að vinnu. 

„Það sem þú sérð í öll­um evr­ópsk­um lönd­um er að inn­fædd­ir eru farn­ir að sanka að sér meiri og meiri kunn­áttu og fagþekk­ingu og það eru mörg störf sem inn­fædd­ir vilja ekki leng­ur ganga í og inn­flytj­end­ur fylla gjarn­an í þau skörð, það er á ein­hvern hátt óumflýj­an­legt.“

Haas bend­ir á að sam­fé­lags­leg vanda­mál sem skap­ast hafi vegna inn­flytj­enda séu helst til­kom­in vegna þess að sam­fé­lagið hafi ekki verið til­búið í að taka á móti þeim. 

„Auðvitað á að skapa inn­flytj­end­um aðstæður þar sem þeir geta fundið sér vinnu og forðast mis­mun­un. Án þess skap­ast fé­lags­leg vanda­mál til lengri tíma litið. Það er það sem mis­lukkaðist á fyrri ára­tug­um. Á átt­unda ára­tugn­um í vest­ur Evr­ópu var komið fram við fjölda inn­flytj­enda sem er­lenda verka­menn sem væru ein­ung­is gest­ir og myndu að lok­um flytja aft­ur til „síns heima“. Eng­inn hugsaði út í þarf­ir þeirra sem beind­ust að því að tengj­ast sam­fé­lag­inu. Það skapaði úti­lok­un inn­flytj­enda og fé­lags­leg vanda­mál sem mörg lönd eins og Þýska­land en einnig Svíþjóð og Dan­mörk eru enn að kljást við. Í mín­um skiln­ingi þá er það hvernig Ísland tækl­ar fólks­flutn­inga til lands­ins mun skyn­sam­leg­ar.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert