Þurfum frekari rannsóknir á loftmengun og heilsu

Dr. Ragna G. Finnbjörnsdóttir og Þorsteinn Jóhannsson, tveir af höfundum …
Dr. Ragna G. Finnbjörnsdóttir og Þorsteinn Jóhannsson, tveir af höfundum greinar um loftgæði á Íslandi og áhrif þeirra á heilsu. Ljósmynd/Aðsend

Þörf er á frekari rannsóknum á loftgæðum og tengslum þeirra við heilsu Íslendinga ef marka má nýja yfirlitsgrein í Læknablaðinu. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilsubresti Íslendinga af völdum loftmengunar hafa sýnt fram á samband á milli verri loftgæða annars vegar og lyfjaúttekta, dauðsfalla og innlagna á Landsspítala hins vegar. Þó er ekki hægt að fullyrða með vissu hvort um er að ræða orsakasamband eður ei því rannsóknirnar eru of fáar.

„Hér á Íslandi erum við frekar aftarlega á merinni með þetta hvað varðar rannsóknir,“ segir dr. Ragnhildur G. Finnbjörnsdóttir lýðheilsufræðingur og einn höfunda greinarinnar. Hún segir umhverfisheilbrigði (e. Environmental health) vera vaxandi grein erlendis en hér sé henni ábótavant. „Það þarf að skoða betur áhrif mismunandi efna á heilsu, bæði frá umferð og frá jarðvarma svo þarf að skoða betur efnasamsetninguna á svifrykinu. Til dæmis að skoða hvaðan þetta er að koma,“ segir Ragnhildur og bætir við að til að fara í aðgerðir gegn loftmengun sé betra að hafa þessa hluti á hreinu.

Sérstakar aðstæður á Íslandi

Efnasamsetning mengunar hér á landi er ólík því sem finnst erlendis því hér er mengun frá jarðhitavirkjunum í formi brennisteinsvetnis sem hefur áhrif. Rannsóknir sem gerðar eru erlendis snúa því aðallega að svifryki. „Það eru til þúsundir rannsókna sem sýna að það er samband á milli svikryksmengunar og heilsufarsbrests,“ segir Ragnhildur og bendir á að samband brennisteinsvetnis og heilsufarsbrests hjá almenningi mætti skoða betur.

Ragnhildur vill þó meina að áhugi á loftgæðum sé að aukast, bæði hjá almenningi og stjórnvöldum. „Í lok árs 2017 gaf umhverfis- og auðlindaráð út aðgerðaráætlun fyrir loftgæði á Íslandi,“ segir hún og tekur fram að þá sé ekki um að ræða aðgerðaráætlun um losun gróðurhúsalofttegunda heldur verið að skoða mengun loftsins sem við öndum að okkur. „Þó loftgæðin séu almennt góð hér á Íslandi þá eru ákveðnir dagar þar sem við erum með hærri styrk loftmengunar. Þurrar vetrarstillur til dæmis ýta oft undir hærri styrk svifryks.“

Jarðvarmavirkjanir valda mengun sem getur reynst skaðleg fyrir heilsu almennings …
Jarðvarmavirkjanir valda mengun sem getur reynst skaðleg fyrir heilsu almennings en sambandið hefur þó ekki verið rannsakað nægilega. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert