Útlit fyrir gráa daga í höfuðborginni

Svifryk fer gjarnan yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu þegar lygnt er …
Svifryk fer gjarnan yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu þegar lygnt er og bjart. mbl.is/Hari

Auknar líkur eru á því að loftmengun gæti farið yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum, því er útlit fyrir svokallaða gráa daga á næstunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Strætó en Strætó og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetja fólk til þess að vera meðvitað um loftgæði á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum.

Gert er ráð fyrir þurru og hæglátu veðri á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum en í slíkum aðstæðum geta líkur á loftmengun vegna köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) aukist.

„Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Síðastliðinn sunnudag og mánudag mældist styrkur köfnunarefnisdíoxíðs hár við stórar umferðaræðar“, segir í tilkynningunni.  

„Við erum að renna inn í tímabil þar sem loftmengun vegna bílaumferðar kann að fara yfir heilsuverndarmörk. Það er er erfitt að spá nákvæmlega hvernig köfnunarefnisdíoxíið muni safnast fyrir á höfuðborgarsvæðinu og því hvetjum við fólk til að vera meðvitað um loftgæði og fylgjast með viðvörunum“, er haft eftir Svövu Steinarsdóttur, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í áðurnefndri tilkynningu.  

Best að nýta sér vistvænar samgöngur

Köfnunarefnisdíoxíð getur valdið ertingu í lungum og öndunarvegi og ættu börn og þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna.

„Besta leiðin til þess að reyna að bregðast við loftmengun er að fólk nýti sér vistvæna samgöngumáta, eins og að hjóla, ganga eða taka Strætó á milli staða“, segir í tilkynningunni.

Vert er að benda á að „gráir dagar“ eru góðir dagar til þess að hvíla bílinn og prófa að nota vistvænar samgöngur.  Það er hæglætisveður og engin rigning. Við fáum í raun ekki betri daga á veturna til þess að leggja okkar af mörkum fyrir bættum loftgæðum“, er haft eftir Guðmundi Heiðari Helgasyni upplýsingafulltrúa Strætó.

„Hægt er að fylgjast með styrk köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) og annarra mengandi efna á síðunni loftgaedi.is og má þar sjá kort yfir mælistaði. Myllumerki átaksins á samfélagmiðlum er #grárdagur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka