Hafði fullt umboð til að ákveða sérkjör

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn er til skoðunar að sameina embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra. Þá er sömuleiðis til skoðunar að sameina lögregluembætti á Suðurnesjum. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Áslaug hefur nú fengið skýringar á umdeildri ákvörðun ríkislögreglustjóra um ný­samþykkt launa­sam­komu­lag yfir- og aðstoðarlög­regluþjón­a rík­is­lög­reglu­stjóra. Segir hún að ríkislögreglustjóri hafi haft fulla heimild til að taka þá ákvörðun. 

„Varðandi skipulag lögreglunnar þá hefur sú vinna gengið mjög vel. Ég býst við að í þessum mánuði geti ég kynnt fyrir aðilum tillögur og fengið við þeim viðbrögð. Það hefur verið mikill samhljómur varðandi ákveðnar tillögur og ég er að vinna með þær núna,“ segir Áslaug.

Hún kveðst hafa reynt að vinna endurskoðun á skipulagi lögreglunnar hratt. „Það er auðvitað óheppilegt að svona breytingar taki mikinn tíma og þess vegna skipaði ég ekki stóra starfshópa í kringum verkefnið heldur vildi ég komast til botns í ákveðnum málum fljótt og örugglega.“

Sameining á Suðurnesjum til umræðu

Spurð um sameiningu embættis ríkislögreglustjóra og embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir Áslaug:

„Það er ein af þessum tillögum og ein af þeim tillögum er líka að sameina Suðurnesin en þetta eru allt tillögur sem eru bara til umræðu í ráðuneytinu.“

Nýlega var samþykkt launa­sam­komu­lag sem fel­ur í sér að all­ir yfir- og aðstoðarlög­regluþjón­ar rík­is­lög­reglu­stjóra fái auk­in líf­eyr­is­rétt­indi. Í fréttum RÚV fyrir um tveimur vikum síðan kom fram að Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands og lögreglustjóri á Vesturlandi, hafi gert alvarlegar athugasemdir launafyrirkomulagið í bréfi til dómsmálaráðherra. Samkomulagið leiddi af sér að umræddir lögreglumenn væru með hærri laun en sjö af níu lögreglustjórum landsins.

Sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu að ekki standi til að gera sambærilega samninga hjá því embætti. Með tilkomu samkomulagsins standa lögreglumenn því misvel eftir því hjá hvaða embætti þeir vinna.

Áslaug óskaði eftir skýr­ing­um ákvörðun rík­is­lög­reglu­stjóra um þetta launafyrirkomulag. Nú hefur hún fengið þær skýringar. 

„Ríkislögreglustjóri svaraði þeim spurningum og vangaveltum sem ég var með og af hans skýringum er ljóst að hann hafði fulla heimild til þessara ákvarðana,“ segir Áslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert