Jafnmargir íbúar og starfsmenn Hrafnistu smitast af nóróveiru

Alls hafa um 80 smitast af nóróveiru á Hrafnistu í …
Alls hafa um 80 smitast af nóróveiru á Hrafnistu í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Alls hafa um 80 smitast af nóróveiru á Hrafnistu í Hafnarfirði frá því á mánudaginn, um 40 íbúar og 40 starfsmenn. Þrjú ný tilvik greindust í nótt. Nóróveiran hefur greinst á þremur af fjórum deildum Hrafnistu. 

„Þrátt fyrir þetta erum við tiltölulega sátt við stöðuna eins og hún er núna. Okkur finnst fólkið almennt vera á batavegi,“ segir Árdís Hulda Ei­ríks­dótt­ir, for­stöðumaður Hrafn­istu á Hraun­vangi. 

Enn er smitgát á húsinu, það er að segja strangar sóttvarnir sem felast í því að öll­um stöðum í hús­inu þar sem íbú­ar koma sam­an hefur verið lokað. Til að mynda fá allir íbúar matinn sendan á íbúðir sínar í stað þess að snæða saman í matsalnum auk þess er heimsóknum haldið í lágmarki.  

Þeir einstaklingar sem smiðust fyrst eru að ná sér og starfsmenn hafa snúið aftur til vinnu. „Við vonum að allt verði komið í eðlilegt horf eftir helgi,“ segir Árdis. 

Enginn íbúanna hefur orðið það lasburða að hann hafi þurft að fá vökva í æð. Árdís segir að vel sé fylgst með fólki og því hjúkrað á heimilum sínum svo ekki þurfi að flytja það á Landspítalann með tilheyrandi hættu á að smita aðra sjúklinga þar enn frekar.

Þess má geta að um síðustu helgi smituðust um 80 starfsmanna KPMG að því er talið af nóróveiru. Um miðjan mánuðinn kom upp nóróveira í ungbarnaleikskóla í Grafar­vogi og var honum lokað í nokkra daga í kjöl­farið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert