Kirkjuráð samþykkti í dag að skila bréfi, sem séra Þórir Stephensen fyrrverandi dómkirkjuprestur sendi kirkjuráði í september og ekki mátti opna fyrr en eftir andlát hans, aftur til Þóris.
„Kirkjuráð samþykkti að endursenda óopnað umslag séra Þóris Stephensen sem lagt var fram á síðasta fundi kirkjuráðs,“ segir í skriflegu svari samskiptastjóra Biskupsstofu til mbl.is.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í Kastljósi í vikunni að hún myndi vilja að bréfinu yrði skilað og að hún vissi ekki hvert innihald bréfsins væri.
Fyrir fjórum árum játaði Þórir að hafa brotið kynferðislega gegn ungri stúlku snemma á sjötta áratug síðustu aldar þegar hann var guðfræðinemi.
Árið 2015 var haldinn sáttafundur milli Þóris og konunnar þar sem hann baðst fyrirgefningar á því að hafa misnotað hana. Agnes hélt þann fund. Fram til ársins 2018 sinnti Þórir hinum ýmsu embættisverkum innan kirkjunnar eftir að hann lét formlega af embætti. Það ár bað Agnes Þóri um að taka ekki að sér fleiri athafnir eða þjónustu. Þau voru sammála um það, að sögn Agnesar.