Loftgæði mælast nú slæm á mælum Umhverfisstofnunar við Grensásveg og miðlungsgóð við Dalsmára í Kópavogi og Fossaleyni í Grafarvogi. Þetta má sjá á vefsíðunni loftgaedi.is sem Umhverfisstofnun heldur úti.
Í gær var greint frá því að von væri á gráum dögum á næstunni og að loftmengun gæti farið yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu, en gert er ráð fyrir áframhaldandi þurru og hæglátu veðri. Í slíkum aðstæðum geta líkur á loftmengun vegna köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) aukist.
Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og síðdegis þegar umferð er mest. Síðastliðinn sunnudag og mánudag mældist styrkur köfnunarefnisdíoxíðs hár við stórar umferðaræðar.