Auglýst eftir forstjóra Reykjalundar

Reykjalundur.
Reykjalundur.

Staða forstjóra Reykjalundar er auglýst laus til umsóknar í Morgunblaðinu í dag. Í auglýsingunni segir að leitað sé að öflugum einstaklingi í „krefjandi stjórnunar- og leiðtogastarf þar sem reynir á samskiptahæfni, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð“. Nýi forstjórinn á að hefja störf 1. janúar næstkomandi.

Samið var um starfs­lok við Birgi Gunn­ars­son for­stjóra Reykjalund­ar, í lok sept­em­ber. Alls hafa tíu læknar sagt upp störfum á Reykjalundi frá því í sumar, þar af hafa níu sagt upp undanfarnar vikur vegna óánægju með með af­skipti SÍBS af rekstri Reykjalund­ar.

Svandís Svavars­dótt­ir, heil­brigðisráðherra, sagði í samtali við mbl.is í gær að ríkið geti í raun ekki gripið inn í rekst­ur Reykjalund­ar nema með því að óska eft­ir upp­lýs­ing­um frá SÍBS um stöðuna á Reykjalundi í gegn­um Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands (SÍ) en það hef­ur heil­brigðisráðuneytið nú þegar gert. Hún sagði óheppi­legt að þjón­usta Reykjalund­ar standi á ótraust­um grunni. 

Krafist háskólamenntunar á sviði stjórnunar og rekstrar

Í auglýsingunni eru helstu verkefni og ábyrgð tilgreind, en þau eru m.a. stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar, stefnumótun og áætlanagerð, ábyrgð á starfsemi Reykjalundar gagnvart stjórn og stjórnun mannauðs.

Krafist er háskólamenntunar á sviði stjórnunar og rekstrar og í auglýsingunni segir að menntun og íslenskt starfsleyfi á sviði heilbrigðisvísinda sé æskilegt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert