Búinn að vera atvinnulaus

Ólafi Jóhanni Ólafssyni eru innflytjendur ofarlega í huga í nýrri …
Ólafi Jóhanni Ólafssyni eru innflytjendur ofarlega í huga í nýrri skáldsögu. Eggert Jóhannesson

„Ég er búinn að vera atvinnulaus,“ svarar Ólafur Jóhann Ólafsson og glottir í kampinn, spurður hvað hann hafi verið að sýsla undanfarið hálft annað ár. Eftir meira en þrjá áratugi í eldlínu viðskiptanna í Bandaríkjunum, fyrst hjá Sony og síðan Time Warner, þar sem hann var lengi aðstoðarforstjóri, yfirgaf hann síðarnefnda fyrirtækið eftir að stærsta fjarskiptafyrirtæki heims, AT&T, tók það yfir í fyrra og nafninu var breytt í WarnerMedia. 

„Eins og tíðkast skrifaði ég undir samning þess efnis að ég myndi ekki ráða mig til samkeppnisaðila í eitt og hálft ár og sá tími rann nýlega út. Ég get því farið að líta í kringum mig. Satt best segja er ég þó hvorki kominn með fiðring né fráhvarfseinkenni og konan mín segir að ég hafi aldrei haft meira að gera en undanfarna mánuði. Ég slysaðist inn í þennan bransa árið 1986, er með gráðu í eðlisfræði og ætlaði aldrei út í viðskipti, en hafði alltaf mjög gaman af því sem ég var að gera og starfið var aldrei kvöð, annars hefði ég verið löngu hættur. Ég held líka að ég hafi höndlað álagið ágætlega. Það þýðir ekki að vera með neitt kæruleysi þegar maður ber ábyrgð á velferð tugþúsunda starfsmanna, að ekki sé talað um ábyrgðina gagnvart eigendunum, sem einkum voru lífeyrissjóðirnir. Svona starf krefur mann um mikla orku og við þessar breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins fannst mér upplagt að láta staðar numið og taka mér umþóttunartíma. Hvort það verður að eilífu á eftir að koma í ljós.“

Hann brosir.

Ekkert liggur á

Þegar frekar er á Ólaf gengið viðurkennir hann að ólíklegt sé að hann taki að sér sambærilegt starf og hann gegndi hjá Time Warner. „Það breytir ekki því að ég hef mikinn áhuga á þessum bransa, fjölmiðlum og afþreyingariðnaði, og hef þegar fengið tilboð og fyrirspurnir. Ég ætla hins vegar að gefa mér góðan tíma til að velta þessu fyrir mér enda liggur ekkert á. Ég kann ágætlega við að geta stjórnað mínum eigin tíma og síma og hef notið þess að þurfa ekki að dansa eftir öðru lagi en mínu eigin. Það er til dæmis afskaplega notalegt að setjast bara niður á kaffihúsi á miðjum degi – og velta vöngum.“ 

Því fer þó fjarri að Ólafur Jóhann sitji auðum höndum; ríflegri tími gefst til að skrifa og í vikunni kom einmitt út ný skáldsaga, Innflytjandinn. Sögusviðið er Reykjavík í febrúarskammdeginu. Íslensk kona, sem búið hefur um langt árabil í New York, kemur heim til að virða hinstu ósk vinar síns. Hún sogast óvænt inn í rannsókn lögreglu á morði á erlendum ríkisborgara, múslima, sem finnst látinn í Örfirisey. Málið hefur þó ekki forgang hjá lögreglu fyrir þær sakir að daginn áður hvarf ung íslensk stúlka eins og jörðin hefði gleypt hana í miðborginni. Og heil þjóð stendur á öndinni. 

Ólafur Jóhann kemur víða við í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann kemur meðal annars því sjónarmiði sínu á framfæri að það hafi verið óráð að stytta framhaldsskólanám á Íslandi úr fjórum árum í þrjú. „Maður tekur út mikinn þroska í menntaskóla og þessi ár eru fljót að líða. Það munar um þetta eina sem búið er að klípa af. Sjálfur stundaði ég námið af kappi í MR en sökkti mér um leið í bókmenntir og var mikið með félögunum. Þetta hefði verið mun flóknara hefðu árin bara verið þrjú.“

Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP


Bandaríska þjóðin að klofna

Ólafur hefur búið í tæpa fjóra áratugi í Bandaríkjunum og víkur að andrúmsloftinu þar. „Bandarískt samfélag hefur breyst mikið eftir að Donald Trump tók við embætti. Maður finnur alls staðar fyrir þessu. Keyrt hefur um þverbak, þjóðin er að klofna og orðræðan og andrúmsloftið eftir því. Það fór illt orð af Trump í New York meðan hann stundaði viðskipti þar og það trúði því enginn að hann næði kjöri. En þegar það gerðist bjuggust flestir við því að hann myndi breyta um kúrs, yrði yfirvegaðri, fyndi jafnvægi og myndi ráða hæft fólk í kringum sig. Hann hefur farið alveg í hina áttina. Ég hef aldrei séð forseta hegða sér með þessum hætti, það snýst allt um hans persónu meðan málefnin sitja á hakanum. Fyrir vikið er ástandið ekki gott; þetta er meira en bara hefðbundnar pólitískar skærur, það fylgir þessu meiri óhugnaður.“  

Nánar er rætt við Ólaf Jóhann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert