Dínamítið sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar þurftu að sprengja í Njarðvík í gær var í eigu Gröfuþjónustunnar í Njarðvík. Í tilkynningu lögreglunnar frá í gær, og fréttum fjölmiðla, var talað um að efnið hefði „fundist“ á iðnaðarsvæði bæjarins. Hið rétta er að eigendur efnisins höfðu sjálfir samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar í gær.
Axel Már Waltersson, starfsmaður Gröfuþjónustunnar, segir að dínamítið sem um ræðir sé 10-15 ára gamalt. „Nú eru komnir fleygar framan á allar gröfur og menn sprengja ekki jafnmikið og áður,“ segir Axel. Því hafi leifar af dínamítinu gamla dagað uppi, en það var ekki fyrr en í gærmorgun sem uppgötvaðist að dínamítið væri „farið að leka“.
Með því er átt við að efnið sé farið að skilja sig og kristallast, en við það verður það viðkvæmara fyrir hreyfingu. Því var brugðið á það ráð að hafa samband við sprengjudeild Gæslunnar. Svo virðist sem eitthvað hafi skolast til í samskiptum við lögreglu því í tilkynningu hennar var, sem fyrr segir, talað um að dínamítið hefði „fundist“ og segir Axel að einhverjir gætu út frá því haldið að um vanrækslu sé að ræða af hálfu Gröfuþjónustunnar.
„Við erum 30 ára gamalt fyrirtæki með gott orðspor hér á Suðurnesjum og okkur finnst bara mikilvægt að fólk haldi ekki að við höfum verið að fela eitthvað. Við geymdum dínamít þarna í gámnum, en um leið og við tókum eftir því að eitthvað var athugavert, höfðum við samband við Gæsluna,“ segir Axel.
Dínamítið, um 150 kíló, var geymt í gámi með slagbrandi og lás, en ofan á hann var settur annar gámur, til að gæta öryggis. Engu að síður var dínamítið ekki geymt í sérstökum sprengiefnageymslum í samræmi við kröfur Vinnueftirlitsins, sem Axel segir skýrast af því að þær kröfur séu komnar til eftir að dínamítið var keypt, fyrir rúmum áratug.