„Hið versta mál fyrir kaupendur“

Kaupendur sem blaðamaður hefur sett sig í samband við, allt …
Kaupendur sem blaðamaður hefur sett sig í samband við, allt ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign, telja valkosti sína afar ósanngjarna. mbl.is/Hari

„Þetta er hið versta mál fyrir kaupendur. Þeir standa frammi fyrir tveimur vondum kostum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, um stöðu kaupenda íbúða að Gerplustræti 2-4 í Mosfellsbæ.

Eins og greint var frá á mbl.is á miðvikudag fengu kaupendur íbúða, sem margir hverjir hafa beðið í um það bil eitt og hálft ár eftir að fá íbúðir sínar afhentar, bréf frá athafnamanninum Ásgeiri Kolbeinssyni fyrr í vikunni. Ásgeir tók við stjórnarformennsku í félaginu Gerplustræti 2-4 ehf. í sumar.

Þar var kaupendum greint frá því að félagið sem haldið hefur utan um byggingu fjölbýlishússins væri á leiðinni í þrot og kaupendur þyrftu að greiða afsalsgreiðslu til þess að vera öruggir um að það fé sem þeir hefðu þegar lagt til íbúðakaupanna myndi ekki glatast við gjaldþrotið. Einnig þyrftu þeir að sætta sig við að fá engar bætur vegna þeirra gríðarlegu tafa sem hafa orðið á byggingu fjölbýlishússins.

Reyndu að rifta kaupunum en fengu aldrei greiðslur

Kaupendur sem blaðamaður hefur sett sig í samband við, allt ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign, telja þetta afar ósanngjarna kosti og það hafa lögmenn sem hafa liðsinnt kaupendum líka sagt, enda eigi kaupendurnir rétt á bótum fyrir þessar miklu tafir sem hafa orðið á verkinu.

Dæmi eru um að fólk hafi dvalist í lengri tíma á hótelum vegna tafanna með tilheyrandi kostnaði og sumir hafa flutt heim í foreldrahús eða til annarra ættingja, jafnvel utan höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi samgöngukostnaði. Þá eru dæmi um að fólk hafi ætlað að setja eign sína strax í útleigu vorið 2018, þegar hún átti að fást afhent, og telji sig því hafa orðið af töluverðum leigutekjum.

Sturla Sighvatsson var forsvarsmaður verkefnisins og stjórnarformaður Gerplustrætis 2-4 þar …
Sturla Sighvatsson var forsvarsmaður verkefnisins og stjórnarformaður Gerplustrætis 2-4 þar til í sumar.

Einn kaupandi, Sveinn Fannar Brynjarsson, lýsir því í samtali við blaðamann að hann og kærasta hans hafi gert tilraunir til þess að rifta kaupunum eftir að um það bil árs töf hafði orðið á afhendingu. Hann segist hafa verið í sambandi við Sturlu Sighvatsson fyrrverandi forsvarsmann verkefnisins vegna þessa og ber honum ekki vel söguna, allt sem frá honum kom hafi verið svikið.

Ásgeir Kolbeinsson sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að stjórn Gerplustrætis 2-4 ehf. væri að undirbúa lögsókn á hendur Sturlu — útlit væri fyrir að eitthvað ólöglegt hefði átt sér stað á meðan að hann stýrði félaginu

„Við ætluðum að rifta í maí, þá vorum við alveg búin að gefast upp á þessu, vildum bara fá peninginn sem við vorum búin að leggja í þetta til baka og finna okkur einhverja nýja íbúð,“ segir Sveinn. Hann segir lögmann þeirra hafa sett sig í samband við lögmann Sturlu og því hafi verið heitið úr þeirri átt að það yrði „ekkert mál“ að rifta kaupunum.

En svo bárust greiðslur aldrei, þrátt fyrir margar ítrekanir. Sveinn og kærasta hans ákváðu á endanum að flytja bara inn, þegar hreyfing komst á framkvæmdina síðsumars.

Þau ætla hins vegar áfram að reyna að sækja bætur vegna tafanna og hyggjast fá niðurfellda svokallaða lokagreiðslu vegna kaupanna, upp á um það bil eina milljón, sem enn hefur ekki farið fram þrátt fyrir að þau séu búin að þinglýsa kaupunum.

Alltaf áhætta að kaupa óséða eign

Breki segir að enginn kaupandi hafi leitað til Neytendasamtakanna vegna þessa máls. Hann segir margar spurningar vakna í sambandi við það.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert

„Maður veltir fyrir sér hvort að fólk hefði tekið þessa áhættu, ef það hefði vitað af henni. Það er að mörgu að huga og margar spurningar sem vakna. Þetta er eitthvað sem samtökin munu taka til umfjöllunar og velta upp, aðallega til þess að koma í veg fyrir svona í framtíðinni, að fólk geti misst ævisparnaðinn í svona kaupum,“ segir Breki.

Hann bætir við að þegar fólk kaupi óséðar eignir fylgi því alltaf áhætta, hvort sem að hún komi fram eins og í þessu máli eða þegar upp komi að frágangi sé ábotavant og endanleg útkoma ekki eins og kaupandinn hafi gert ráð fyrir.

„Þetta vekur upp spurningar um réttindi kaupenda, skyldur fasteignafélagsins, skyldur fasteignasalans og þetta er eitthvað sem við munum ræða á fundi með Félagi fasteignasala, sem við fundum reglulega með,“ segir Breki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert