Í gær hóf Íslandsdeild Amnesty International sölu á sokkum til styrktar mannréttindastarfi samtakanna.
Fögnuður af þessu tilefni var í versluninni Yeoman boutique við Skólavörðustíg í Reykjavík síðdegis í gær, en þangað mættu margir bæði til að kaupa varninginn og til þess að sýna málstaðnum stuðning.
Sokkapörin, sem bera yfirskriftina Fyrir Amnesty, eru hönnuð af íslenskum hönnuðum. Sokkarnir eru framleiddir í verksmiðju í Portúgal þar sem mikið er lagt upp úr sjálfbærni í framleiðsluferlinu. Ferlið er formlega vottað af Cotton Made in Africa sem er framtak í Afríku sem vinnur að því að efla lífskjör smábænda og stuðla að umhverfisvænni bómullarframleiðslu samkvæmt ströngum skilyrðum, eins og nú eru hvarvetna höfð að leiðarljósi í fataframleiðslu eins og þessari.
Sokkarnir eru til sölu á www.amnesty.is, í Yeoman boutique eins og fyrr er nefnt og loks versluninni Ungfrúnni góðu við Hallveigarstíg. Um miðjan mánuð verður einnig hægt að finna þá í verslunum Hagkaups.