Kirkjan skildi ekki kall tímans

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra gagnrýndi afstöðu þjóðkirkjunnar til mannréttindabaráttu samkynhneigðra á árum áður í ræðu sinni í upphafi Kirkjuþings sem hófst í dag. Hún sagði að kirkjan hefði ekki  verið í takti við þjóðina sem í upphafi aldarinnar hafði að miklum meirihluta snúist á sveif með hinsegin fólki í baráttu fyrir sjálfsögðum mannréttindum.

Í því ljósi verði ekki annað sagt en að þjóðkirkjan hafi ekki skilið kall tímans í málefnum hinsegin fólks þegar mest á reið.

Á Twitter-síðu sinni skrifar Áslaug Arna að hún hafi nefnt þessi mál vegna þess að hún telji að þjóðkirkjan verði að læra af mistökum sínum. 

„Nú vil ég þó sérstaklega taka fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að kirkjan eigi að sveiflast með tískubylgjum. En réttindabarátta samkynhneigðra var ekki tískubylgja. Hún var ekki merki um hnignun samfélagsins eða afturför góðra gilda. Afstaða kirkjunnar fældi marga frá henni og ekki aðeins hinsegin fólk heldur einnig fjölskyldur & vini sem ekki skildu orðræðu forsvarsmanna kirkjunnar,“ skrifar Áslaug Arna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert