LHG fylgist með vegna þyrluslyss í S-Kóreu

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Upplýsingarfulltrúi Landhelgisgæslunnar segir að vel sé fylgst með gangi mála í kjölfar þyrluslyss sem varð í Suður-Kóreu fyrir helgi. Þyrlan sem fórst er af sömu gerð og leiguþyrlur Landhelgisgæslunnar. 

„Landhelgisgæslan mun fylgjast með framvindu rannsóknar á tildrögum þyrluslyssins í Suður-Kóreu. Við komum til með að óska eftir upplýsingum frá Airbus, framleiðanda vélanna, og flugmálayfirvöldum. Að svo komnu máli hefur ekkert komið fram sem kallar á viðbrögð af hálfu Landhelgisgæslunnar en grannt verður fylgst með málinu,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. 

Þyrlan sem fórst í Suður-Kóreu á fimmtudag var af gerðinni H225 Super Puma, þeirri sömu tegund og þyrlan sem fórst í Noregi fyrir rúmlega þremur árum síðan, en leiguþyrlur Landhelgisgæslunnar TF-EIR og TF-GRO eru einnig þeirrar gerðar og birti franska flugslysarannsóknarnefndin mynd af TF-EIR á Twitter-síðu sinni vegna rannsóknar sinnar á flugslyssinu í S-Kóreu.

Ásgeir segir að nú verði að koma í ljós hver tildrög slyssins í Suður-Kóreu hafi verið og að Landhelgisgæslan bregðist við í samræmi við það. 

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, hefur lýst því yfir að allar H225 þyrlur í landinu verði yfirfarnar í kjölfar slyssins. Talið er að allir 7 sem voru um borð í þyrlunni hafi farist. Um borð í þyrlunni voru tveir flugmenn, tæknimaður, tveir björgunaraðilar og slasaður einstaklingur sem þyrlan var að flytja á sjúkrahús. Þyrlan hrapaði í hafið um tveimur mínútum eftir flugtak. 

Þrettán létust þegar H225 þyrla hrapaði við Tyrøy í Hörðalandi í Noregi í júlí 2016. Í kjölfarið voru Airbusþyrlur af gerðinni H225 kyrrsettar tímabundið á heimsvísu. Rannsóknarnefnd flugslysa í Noregi sagði í lokaskýrslu sinni um málið að málmtæring í gírkassa hafi valdið slysinu og að ekki hafi verið um mannleg mistök að ræða. 

Eftir því sem fram kemur á vef Reuters voru breytingar gerðar á gírkössum H225 þyrla þegar flotinn var kyrrsettur í kjölfar slysins í Tyrøy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert