Til greina kemur að sameina embætti ríkislögreglustjóra og lögregluembætti höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.
Breytingar á skipulagi löggæslumála eru nú í vinnslu innan dómsmálaráðuneytisins en Áslaug segir engar ákvarðanir hafa verið teknar enn. Meðal annarra tillagna sem eru í vinnslu er stofnun sérstakrar landamæradeildar lögreglunnar sem tæki við löggæslu á Keflavíkurflugvelli og öðrum völlum landsins, en lögreglan á Suðurnesjum sér nú um löggæslu á vellinum.
„Við höfum séð það að Keflavíkurflugvöllur dregur töluvert úr almennri löggæslu á Suðurnesjum, sérstaklega vegna mikillar fjölgunar ferðamanna,“ segir Áslaug. Með breytingunni megi styrkja almenna löggæslu á Suðurnesjum en einnig auka sérhæfingu innan landamæradeildar.
Aðspurð segir Áslaug að tillögurnar leggist vel í lögreglumenn sjálfa, en þeir hafa verið hafðir með í ráðum auk annarra hagsmunahópa. „Hér á ekki að leggja niður störf í almennri löggæslu heldur að samræma verklag og nýta betur fjármagn svo það megi efla almenna löggæslu,“ segir Áslaug.
Tillögur hennar eru mislangt á veg komnar, en Áslaug segir að fyrstu skref gætu verið tekin strax á þessu ári. Aðrar tillögur þurfi hugsanlega að móta frekar í sérstökum nefndum.