Flest manndráp eru á sunnudögum

Lögregla að störfum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kemur að samnorrænni rannsókn …
Lögregla að störfum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kemur að samnorrænni rannsókn á manndrápum á Norðurlöndunum. Kristinn Ingvarsson

Sunnudagur er sá dagur vikunnar sem líklegast er að manndráp sé framið hér á landi. Tveir af hverjum þremur brotamönnum í slíkum málum eru undir áhrifum áfengis og brotin eru oftast framin á heimili brotamanns eða þolanda. Á Íslandi er um fjórðungur manndrápa framinn að morgni. Þetta eru meðal niðurstaðna samnorrænnar rannsóknar sem kynnt var á Þjóðarspegli, ráðstefnu Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, á föstudaginn.

Að rannsókninni koma háskólarnir í Helsinki, Árósum, Stokkhólmi og Jyväskylä í Finnlandi, auk danska dómsmálaráðuneytisins, embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Jónas Orri Jónasson, sérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að markmiðið hafi verið að rannsaka manndráp allt aftur til 16. aldar, en hluti þeirra sem kemur að rannsókninni eru sagnfræðingar.

„Við erum m.a. að bera saman hvernig litið var á manndráp þá og nú,“ segir Jónas, en á kynningunni á Þjóðarspegli var einblínt á manndráp á árunum 2007-’16, nema á Íslandi þar sem farið var aftur til ársins 1990.

Að sögn Jónasar eru flest brotin framin á einkaheimilum annaðhvort …
Að sögn Jónasar eru flest brotin framin á einkaheimilum annaðhvort geranda eða brotaþola. Ófeigur Lýðsson

Flest manndráp í Finnlandi

Finnland er það Norðurlandanna þar sem manndráp eru tíðust, en þar er tíðni þeirra tvö á hverja 100.000 íbúa á hverju ári. Á Íslandi er þessi tíðni 0,5 á hverja 100.000 íbúa eða fjórum sinnum lægri. Noregur er það land þar sem tíðnin er næstlægst, 0,62 á hverja 100.000 íbúa, í Danmörku er hún 0,88 og í Svíþjóð 0,91.

Þess ber að geta að hryðjuverkin í Útey í Noregi árið 2011 eru ekki talin með í þessari rannsókn, þar sem þau eru skilgreind sem frávik.

Jónas segir að ekki hafi fundist haldbærar skýringar á því hvers vegna tíðnin sé hærri í Finnlandi en í hinum löndunum. „Þar er meiri áfengisneysla og meiri einangrun. Það á reyndar líka við hér á landi, en við erum minna samfélag og höldum þéttar utan um hvort annað. Kannski hefur það áhrif.“

Karlar meirihluti brotamanna og þolenda

Í öllum löndunum eru karlar í meirihluta gerenda. Hlutfallið er hæst í Svíþjóð þar sem það er 91% og lægst á Íslandi þar sem það er 83%. Það sama gildir um kyn brotaþola; alls staðar eru karlar í miklum meirihluta; hér á landi eru þeir 72% og á bilinu 57-72% á hinum Norðurlöndunum.

Að sögn Jónasar eru flest brotin framin á einkaheimilum annaðhvort geranda eða brotaþola. „Til dæmis eru 63% manndrápa á Íslandi framin á heimilum fólks, en aðeins 25% í almennum rýmum. Þá er hnífur er algengasta vopnið í öllum löndunum,“ segir Jónas. „Það er áhugavert að hér á landi er líkamsárás án vopna banameinið í þriðjungi manndrápsmála, en tíðni þess er töluvert lægri á hinum Norðurlöndunum.“

Jónas Orri Jónasson.
Jónas Orri Jónasson. Ljósmynd/Aðsend

Framin í ölæði

Hann segir Ísland skera sig frá hinum löndunum á þann hátt að hér séu manndráp sjaldan skipulögð fyrirfram. „Hér virðast þau framin í einhver konar ölæði, en  Ísland og Finnland eru þau lönd þar sem brotamenn eru oftast undir áhrifum áfengis,“ segir Jónas. Hér er hlutfallið 66%, en í Noregi er það 19% og 47% í Danmörku. 50% brotamanna í manndrápsmálum í Svíþjóð eru undir áhrifum áfengis.“

Í 46% manndrápsmála hér á landi er um að ræða kunningja og 38% er fólk tengt fjölskylduböndum. Í Noregi og Danmörku eru fjölskyldubönd algengustu tengslin. Hér á landi eru brotaþoli og gerandi ókunnug í 17% þessara mála en það hlutfall er aðeins lægra á hinum Norðurlöndunum.

Spurður hvernig rannsókn sem þessi nýtist segir Jónas að til standi að útbúa gagnagrunn yfir manndráp á Norðurlöndunum. „Þetta er sá brotaflokkur sem einna auðveldast er að bera saman þar sem brotin eru alls staðar skilgreind á svipaðan hátt,“ segir Jónas. 

Næstum fjórðungur manndrápa fyrir hádegi

Annað sem skoðað var á hvaða tíma sólarhringsins brotið sé framið. Í öllum löndunum nema Finnlandi var tímabilið frá miðnætti til klukkan 6 að morgni algengasti tíminn. Ísland sker sig úr varðandi manndráp að morgni, en hér á landi er næstum því fjórðungur manndrápa framin á milli klukkan 6 að morgni fram að hádegi sem er talsvert hærra hlutfall fyrir þennan tíma sólarhrings en í hinum löndunum.

Þá var skoðað á hvaða degi vikunnar manndráp eru framin. Hér á landi er sunnudagur algengasti dagurinn, Danir fremja helst manndráp á miðvikudögum og Finnar og Svíar á laugardögum. Þriðjudagur er sá vikudagur þegar manndráp eru síst framin hér á landi. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert