„Ég er í hópi þeirra sem alla tíð hafa haft efasemdir um EES-samninginn; hefði kosið tvíhliða samning við Evrópusambandið og þannig sloppið við endalausar kröfur frá Brussel um að markaðsvæða innviði samfélagsins,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, á vefsíðu sinni þar sem hann ræðir um aðild Íslands að samningnum.
Því miður, segir Ögmundur, hafi EES-samningurinn ekki verið lagður í þjóðaratkvæði á sínum tíma. Málið hafi ekki verið flókið að hans mati. „Viljum við undirgangast einhliða samkomulag um að gleypa við öllu sem Brussel dettur í hug að innleiða eða byggja á samstarfi í anda EFTA, tolla- og verslunarsamstarfi og síðan samstarfi á sviði vísinda-, mennta-, menningar- og mannréttindamála[?]“ EES-samningurinn hafi illu heilli orðið ofan á.
„Margir telja það hins vegar hafa verið mikið gæfuspor. Það er vissulega sjónarmið sem ber að virða og ræða. En þarf ekki líka að virða mitt sjónarmið?“ spyr Ögmundur og bætir síðan við að það geri ríkisstjórnin ekki og vísar til myndskeiða sem birst hafa á samfélagsmiðlum á vegum utanríkisráðuneytisins þar sem fjallað er um EES-samninginn.
Ögmundur segir ýmsar hliðar á EES-málinu og að sjálfsagt sé að ræða þær en „varla með einhliða áróðri“ sem Stjórnarráðið birti „í gríð og elg [sic]“ á samfélagsmiðlum fyrir fé skattgreiðenda, en grein hans ber fyrirsögnina „Fara skattarnir mínir í þennan áróður?“.