Sárt að sjá stoðunum kippt undan ævistarfinu

Magnús hafði starfað á Reykjalundi frá 1985.
Magnús hafði starfað á Reykjalundi frá 1985. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Magnús Ólason, fyrrverandi framkvæmda­stjóri lækninga á Reykjalundi, segir að hann hafi verið tilbúinn að ljúka störfum en ekki að vera rekinn án nokkurrar ástæðu.

Þetta kemur fram í umfjöllun um mál hans í Læknablaðinu. „Ég var undir það búinn að hætta að vinna. Það var ekki vandamálið, en ég var ekki undirbúinn undir að vera látinn fara fyrirvaralaust án nokkurrar ástæðu. Engar skýringar gefnar,“ segir Magnús sem starfað hafði á Reykjalundi frá 1985.

Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir hefur verið ráðinn í starf Magnúsar og segir Magnús það koma á óvart þar sem Ólafur Þór sé ekki endurhæfingarmenntaður.

„Ég fékk engar skýringar á uppsögninni,“ segir Magnús. „Ég spurði: Hef ég brotið eitthvað af mér? Nei, nei, nei. Hef ég staðið mig illa í starfi? Nei, nei, nei. Þetta var aðeins liður í einhverju ferli sem málið var komið í,“ segir Magnús, sem varð sjötugur á síðasta ári en hafði verið beðinn að vinna áfram, m.a. til að hann gæti haft aðkomu að þjónustusamningsgerð og sinnt sérverkefni eftir að nýr framkvæmdastjóri lækninga tæki við.

„Ég var auðvitað tilbúinn að hætta en ég ætlaði ekki að hætta svona,“ segir hann hreinskilnislega.

„Mér finnst þessi gjörningur í raun svo makalaus og svo vitlaus. Ég er aðallega sár út í að með ákveðnum hætti sé verið að eyðileggja þennan stað sem ég hef lagt krafta mína í frá því að ég kom heim úr sérnámi,“ segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert