„Fyrir mér snýst þetta um prinsipp. Ef það eru ákveðnir hlutir sem þú getur ekki sætt þig við tel ég að það sé hreinlegra að fara heldur en að vera nöldrandi næstu 15 árin. Það er ekki ég,“ segir Hlynur Níels Grímsson, sem útskrifaðist sem krabbameinslæknir árið 2002, í samtali við Læknablaðið sem kom út á föstudaginn. Hlynur hóf sérnám í heimilislækningum til að geta starfað utan Landspítala hér á landi.
Hlynur starfaði við fagið hér heima, í Svíþjóð og í Noregi allt þar til í apríl 2017 þegar hann ákvað að snúa sér að heimilislækningum til að geta sóst eftir starfi utan spítalans hér á landi. „Mér þykir mjög vænt um þessa stofnun að mörgu leyti og mér þykir mjög vænt um fagið mitt,“ segir hann.
„Ég var með tilboð að utan þegar ég hætti og hefði farið ef ég hefði haft aðstæður til en fjölskylduaðstæður mínar eru þannig að ég get ekki farið. Þá varð ég að finna mér eitthvað annað að gera til að hafa stjórn á aðstæðum mínum og er núna í heimilislæknaprógramminu og klára það væntanlega fljótlega,“ segir Hlynur í samtali við Læknablaðið.
„Ákvörðunin var mjög sár og erfið á margan hátt en ég sé ekki eftir þessu,“ segir hann.
„Ég lokaði dyrunum síðasta daginn í apríl 2017 og hugsaði, ég stíg aldrei hér inn fæti aftur. En svo til að ná mér í réttindi sem heimilislæknir verð ég að klára ákveðna hluti. Ég varð því að snúa aftur,“ segir hann og á um tvo mánuði eftir á kvennadeildinni. „Svo klára ég hérna á spítalanum og geri ekki ráð fyrir að koma aftur,“ segir Hlynur.
Hvað gerði útslagið? „Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir hann. „Mér finnst spítalanum ekki vel stjórnað. Gengið hefur verið allt of langt í sparnaði og hagræðingu án þess að yfirstjórn spítalans hafi í rauninni mótmælt því að ráði,“ segir hann.
„Viðvarandi vandamál hérna eru óleyst þrátt fyrir að allir viti að þau séu til staðar. Undanfarin ár hefur ítrekað verið fjallað um málefni bráðamóttökunnar í fjölmiðlum. Þar breytist þó ekki neitt,“ segir hann.
„Stundum er sagt að útskýringin sé sú að það fáist ekki hjúkrunarfræðingar og þetta sé alþjóðlegt fyrirbæri. Það má svo sem vera, en mér finnst þessi rök ekki halda vatni. Ísland er í einstakri stöðu. Ólíkt stóru löndunum er engin samkeppni milli spítala um vinnuafl. Landspítali er langstærstur og ætti að eiga auðvelt með að fá til sín starfsfólk,“ segir hann.
Það var erfitt að hætta sem krabbameinslæknir. „Mér fannst vænt um starfið mitt og mjög vænt um fagið mitt, krabbameinslækningar. Ég get í alvöru og sannleika sagt að þegar ég horfi til baka á það sem ég gerði hérna sem krabbameinslæknir er ég stoltur af því. Ég gerði allt sem ég gat fyrir stofnunina, en stundum verða leiðir að skilja. Þetta er eins og með óhamingjusamt hjónaband, það er ekki hægt að spóla í því í 30 ár,“ segir hann.
En er yfirstjórninni ekki einfaldlega of þröngt sniðinn stakkur? „Jú, jú en einhvern tímann er nóg nóg. Ef búið er að segja við þig 100 sinnum að það þurfi að spara meira, þá hlýtur botninum á endanum að vera náð og þá er það á ábyrgð stjórnenda að segja það upphátt. Þeirra ábyrgð er fyrst og fremst að styðja við starfsfólkið sitt og starfsemina en ekki stjórnvöld eða fjárveitingavaldið, Alþingi eða velferðarnefnd,“ segir hann.
Hann segir samstöðu læknastéttarinnar litla. „Þetta er tætt stétt. Þetta eru margir hópar með mikla sérhagsmuni. Þótt við heitum Læknafélag Íslands og séum undir einni regnhlíf finnst mér það oft hreinlega vera að nafninu til,“ segir hann.
„Mér finnast læknasamtökin almennt hafa lítinn slagkraft. Það sést best á tillögum um ný heilbrigðislög sem liggja fyrir Alþingi. Þar er gert ráð fyrir að læknaráð leggist af. Það sýnir bara hvað við höfum sem stétt lítið að segja.“