Sjúkratryggingar Íslands fara nú yfir gögn og upplýsingar sem borist hafa frá Reykjalundi um mönnun þar til að meta hvort uppsagnir lækna muni hafa áhrif á þjónustusamning á milli SÍ og Reykjalundar. Fundað verður með embætti landlæknis þegar öll gögn hafa verið yfirfarin.
Þetta segir María Heimisdóttir, forstjóri SÍ. Níu læknar hafa sagt upp störfum síðan í haust og einn var rekinn. Einungis þrír læknar við stofnunina hafa ekki sagt upp störfum sínum, eins og komið hefur fram í fréttum.
„Við höfum ekki tekið afstöðu til þessara gagna, við erum enn að fara yfir þau. Það stendur til að við fundum með embætti landlæknis vegna málsins þegar við höfum farið yfir þau gögn og upplýsingar sem okkur hafa borist,“ segir María sem segir að sá fundur sé fyrirhugaður síðar í þessari viku.
„Það er mikilvægt að við séum á sömu síðu og landlæknisembættið í þessu máli,“ segir María. „Við viljum hafa sem best samráð um þetta.“
Í samtali við mbl.is fyrir helgi sagði María að samningur SÍ og Reykjalundar fæli í sér að þar væri veitt tiltekin þjónusta, meðal annars læknisþjónusta. „Ef mönnun fer niður fyrir eitthvert ákveðið viðmið er ljóst að það setur samninginn í uppnám. En við erum ekki stödd þar núna,“ sagði María þá.