Segir sjúklinga ganga fyrir fundum

Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir og formaður læknaráðs á Reykjalundi.
Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir og formaður læknaráðs á Reykjalundi. mbl.is/Þórunn Kristjánsdóttir

„Það að við séum ekki til samstarfs af því að við viljum ekki mæta á fundi er ekki rétt,“ segir Magdalena Ásgeirsdóttir, formaður læknaráðs Reykjalundar. Fram kemur í svari Herdísar Gunnarsdóttur, forstjóra Reykjalundar, við spurningum Landlæknis um stöðu Reykjalundar að skortur á samstarfsvilja lækna ógni meðferð sjúklinga. 

Herdís segir í svari sínu að nokkrir læknar hafi hafnað beiðni Ólafs Þórs Ævarssonar, framkvæmdastjóra lækninga, um viðtal, að því er fram kemur á vef RÚV.

Magdalena segir hins vegar að ekkert hafi komið til lækna frá forstjóra sem bendi til lausna. Boðað hafi verið til funda og fólk hafi mætt á þá eftir bestu getu. „Það hefur verið boðað til þeirra með örstuttum fyrirvara þannig að þeir sem hafa verið í sjúklingavinnu hafa ekki kastað þeirri vinnu frá sér. Hún gengur fyrir,“ segir Magdalena.

Frá Reykjalundi.
Frá Reykjalundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magdalena segir að læknar á Reykjalundi hafi verið boðaðir á einstaklingsfundi með Ólafi en hún, sem formaður læknaráðs og trúnaðarmaður lækna á staðnum, hafi ekki verið boðuð á slíkan fund. 

„Ég gerði athugasemdir við þessi vinnubrögð frá Ólafi og við afþökkuðum alla einstaklingsfundi,“ segir Magdalena. Hún segir enn fremur að þeir fundir sem haldnir hafi verið með stjórnendum hafi verið á þá leið að læknarnir eigi að vinna vinnu stjórnenda. „Við eigum að koma með lausnir, þau hafa engar lausnir.“

Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands fara nú yfir gögn og upp­lýs­ing­ar sem borist hafa frá Reykjalundi um mönn­un þar til að meta hvort upp­sagn­ir lækna muni hafa áhrif á þjón­ustu­samn­ing á milli SÍ og Reykjalund­ar. SÍ mun funda með embætti landlæknis í vikunni.

Alls hafa tíu lækn­ar sagt upp störf­um á Reykjalundi frá því í sum­ar. Níu af þeim sögðu upp ný­verið vegna óánægju með með af­skipti SÍBS af rekstri Reykjalund­ar en einn sagði upp í sum­ar af ótengd­um ástæðum. 

Magdalena segir að læknar þrái ekkert heitar en að fá vinnufrið fyrir stjórnendum. „Þau hafa ekki enn hlustað á neitt sem starfsfólk segir, gefa skít í reynsluna og vita allt betur en þrautreynt starfsfólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert