„Við hefðum kannski kosið að þessar upphæðir væru pínulítið hærri,“ segir Árni Davíðsson formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, um drög að frumvarpi um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja.
Í drögunum er lagt til að reiðhjól og rafhjól verði undanþegin virðisaukaskatti, upp að 100.000 krónum fyrir venjuleg hjól og upp að 400.000 kr. fyrir þau rafmagnsdrifnu. Það þýðir að ívilnanirnar myndu nema 24 þúsund krónum fyrir reiðhjól og 96 þúsund krónum fyrir rafhjól, að hámarki.
Árni segir að hann sjálfur telji að vænlegt væri að hækka upphæðirnar í hvorum flokki um hundrað þúsund krónur, þannig að venjuleg reiðhjól yrðu undanþegin virðisaukaskatti upp að 200.000 krónum og rafmagnshjól mættu kosta 500.000 kr. út úr búð, áður en virðisaukaskattur yrði greiddur af vörunni.
Hann segir að venjuleg reiðhjól, sem fólk ætli að nýta sem samgöngutæki flesta daga ársins með því sliti sem fylgir, megi fá frá 80.000 og upp í 200.000 krónur. Á því verðbili „getur maður fengið ýmsar gerðir af hjólum sem eru mjög góð og frambærileg,“ segir Árni.
Borgarhjól svokölluð, með öllum þeim aukabúnaði sem fylgir, ljósabúnaði, brettum og bögglabera, kosta varla minna en frá 120.000 og upp í 200.000 kr., að sögn Árna.
„Ef maður ætlar að hjóla einhverja kílómetra til og frá vinnu, flesta daga ársins, þá kemst maður kannski ekki af með minna. Kosturinn við þau hjól er að þau endast mun betur, viðhaldið er minna, tala nú ekki um það ef menn eru með diskabremsur, en það fylgir því alltaf slit ef maður hjólar að staðaldri og sérstaklega yfir veturinn, það eykur slitið alveg tvöfalt, þrefalt, miðað við sumarið,“ segir Árni.
Stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna mun fara nánar yfir málið á næstu dögum og skila inn umsögn um drögin, en þar ætla þau sérstaklega að fjalla um svokölluð hlaðhjól eða nytjahjól og athuga hvort hægt sé að setja þau þarna inn sem sérstakan flokk. Nytjahjól eru reiðhjól eða rafmagnshjól sem eru með plássi fyrir farm eða farþega.
„Þau eru talsvert dýrari og hefðu einhvern veginn þurft að koma inn í þetta sem sérstakur flokkur, ef það væri hægt,“ en Árni segir að vönduð nytjahjól séu að kosta frá 600.000 kr. og upp í 1,5 milljónir króna, séu þau rafdrifin.
„En það er spurning hvernig er hægt að koma þeim inn í þetta, það er eiginlega ekki hlaupið að því. Það er ekki til neinn sérstakur tollflokkur fyrir þessi hjól,“ segir Árni. Hann segir slík hjól mikilvæg, þau nýtist fólki til þess að flytja börnin sín í leikskóla og til þess að kaupa inn til heimilisins. Þá hafa slík hjól einnig verið tekin í notkun á hjúkrunarheimilum í sérstöku verkefni sem heitir Hjólað óháð aldri.
Árni segir að Landssamtökum hjólreiðamanna lítist auðvitað vel á það sem sett er fram í frumvarpsdrögunum, að jafnræði verði aukið á milli niðurgreiðslna á mismunandi samgöngukostum.
„Það skýtur auðvitað skökku við að vera að niðurgreiða bíla, eða ívilna með kannski 1,5 milljónum króna í niðurfelldum virðisaukaskatti, þegar það er engin niðurfelling á virðisaukaskatti fyrir kosti sem eru umhverfisvænni heldur en rafmagnsbílar, eins og reiðhjól og rafmagnshjól.
Þetta er alveg tímabært og okkur líst vel á þetta, en við hefðum kannski viljað sjá aðeins hærri upphæð og við hefðum viljað leysa þetta með þessi nytja- eða farangurshjól,“ segir Árni.