Sala á aðgöngumiðum á uppfærslu Þjóðleikhússins á barnaleikritinu Kardimommubænum, sem frumsýnd verður í apríl næstkomandi, slær öll met. Sala á netinu hófst á miðnætti í fyrrinótt og um klukkan 17 í gær voru um 12 þúsund miðar seldir.
„Viðtökurnar eru einstakar, meiri og betri en við höfum áður séð í nokkru leikriti sem hér hefur verð fært upp,“ segir Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri í samtali við Morgunblaðið. Kardimommubærinn eftir hinn norska Thorbjörn Egner hefur oft áður verið sýndur í Þjóðleikhúsinu og aðsókn hefur jafnan verið góð. „Egner stendur alltaf fyrir sínu og leikritin hans og boðskapur þeirra eru nærri hjarta margra kynslóða,“ segir Ari.
Ásdís Skúladóttir verður leikstjóri uppfærslunnar á Kardimommubænum. Með hlutverk ræningjanna fara Sverrir Þór Sverrisson, Hallgrímur Ólafsson og Oddur Júlíusson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikur Soffíu frænku, Örn Árnason Bastían bæjarfógeta og Þórhallur Sigurðsson verður Tóbías í Turninum. Þá taka 24 börn þátt í verkinu; tveir tólf manna hópar. Þykir nauðsynlegt að vera með stóran hóp enda gangi verk eins og Kardimommubærinn oft á annan vetur. Því á að fjölga sýningum miðað við fyrstu áform.