Efling – Stéttarfélag fordæmir ummæli ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins sem látin voru falla í pallborði í Þjóðarspegli Háskóla Íslands í síðustu viku þar sem málefni innflytjenda á vinnumarkaði voru til umræðu.
Segir í yfirlýsingu Eflingar að málflutningur um fólksflutninga og aðbúnað fólks af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði hafi almennt verið vandaður að undanskildum þeim sem viðhafður var af fulltrúa ríkisvaldsins.
Þar segir að ráðuneytisstjórinn hafi sagt að það væri auðvelt að losa sig við verkafólk af erlendum uppruna og það væri kostur. Hann hafi sagt að fólkið nennti ekki að læra íslensku og spurði hvers vegna það ætti að hlúa að fólki sem fari líklega fljótlega úr landi.
„Ummælin vöktu ugg og reiði meðal þátttakenda í pallborði og áhorfenda. Hein de Haas beindi orðum sínum til ráðuneytisstjórans og undirstrikaði mistök annarra þjóða sem hafa hunsað og vanrækt erlent verkafólk sem leggur hönd á plóg á vinnumarkaði og sest að í samfélaginu,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.
Efling hafi því miður þurft að skipta sér af alvarlegum málum þar sem brotið hafi verið með grófum og skipulögðum hætti á erlendu verkafólki. Sem ráðuneytisstjóri félagsmála, og áður forstjóri Vinnumálastofnunar, beri Gissur Pétursson mikla ábyrgð innan málaflokksins.
„Undirritaðar fordæma ummæli og framgöngu ráðuneytisstjórans, Gissurar Péturssonar, og skora á Ásmund Einar Daðason að axla ábyrgð í máli þessu,“ segir í lok yfirlýsingar Eflingar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Agnieszka Ewa Ziolkowska varaformaður skrifa undir.