Nýtt lánasjóðskerfi boðar mikla óvissu fyrir lántaka, að mati Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) en í nýju frumvarpi menntamálaráðherra er gert ráð fyrir breytilegum vöxtum sem ekkert þak er á. Telur ráðið að frumvarpið sýni að enginn vilji sé fyrir því að auka stuðning við námsmenn og að nýtt kerfi muni koma verr út fyrir stóran hluta stúdenta en hið gamla.
Í frumvarpsdögum var gert ráð fyrir því að Lánasjóður íslenskra námsmanna myndi skipta um nafn og verða Styrktarsjóður íslenskra námsmanna. Það gagnrýndi SHÍ og er nú gert ráð fyrir að sjóðurinn muni heita Menntasjóður námsmanna.
„Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) telur breytingar á vaxtafyrirkomulagi námslána í frumvarpi menntamálaráðherra um Menntasjóð námsmanna óásættanlegar. Auk þess telur SHÍ ljóst að enginn vilji sé til staðar til að auka námsstuðning á Íslandi þar sem frumvarpið miði aðeins að því að dreifa þeim stuðningi sem þegar er til staðar á jafnari hátt“, segir í fréttatilkynningu frá SHÍ
„Þá bendir SHÍ á að samkvæmt mati um þjóðhagslegan ávinning af hinu nýja námslánakerfi geta tekjur ríkissjóðs verið u.þ.b. 1-3 milljarðar króna á ári. Þær tekjur skila sér ekki aftur inn í námslánakerfið samkvæmt kostnaðarmati frumvarpsins heldur standa útgjöld ríkisins til námslánakerfisins í stað. Hér hafa stjórnvöld því glatað tækifæri til að fjárfesta í menntun“, segir enn fremur í yfirlýsingunni.
SHÍ telur þó að innleiðing námsstyrkja sé skref í rétta átt enda endurskoðun námslánakerfisins löngu tímabær.
„Á sama tíma er fyrirséð að nýtt kerfi boðar mikla óvissu fyrir endurgreiðendur námslána sem hægt væri að leysa með því að fjárfesta í menntun. Vaxtafyrirkomulag námslána í fyrirhuguðu námslánakerfi er óásættanlegt. Vextir á námslánum munu fara úr því að vera fastir í 1%, eins og hefur verið í gildandi umhverfi, í að verða hærri, breytilegir og án hámarks. Þá er ákvörðun vaxtastigs námslána háð ófyrirsjáanlegum breytum og er áhættu sjóðsins vegna vaxtamismunar útlána hans og námslána varpað á herðar stúdenta. Þessar breytingar munu fyrirsjáanlega gera nýtt kerfi töluvert óhagstæðara en núverandi kerfi fyrir stóran hluta stúdenta.“
Ráðið gagnrýnir markmið frumvarpsins um að námslánahlutinn skuli standa að fullu undir sér og að lánahlutinn verði sjálfbær.
„Ítrekað er vísað til þess að vaxtafyrirkomulagið sem boðað er sé forsenda þess að nýtt kerfi gangi upp og að þessu markmiði verði náð. Þessu markmiði má ekki vera stillt skörinni ofar en hagsmunum stúdenta. Að mati Stúdentaráðs eru rök um sjálfbærni lánahlutans samhliða markaðsvæðingu vaxtakjara yfirklór yfir þá staðreynd að enginn vilji er til staðar til að auka námsstuðning á Íslandi, enda miðar frumvarpið einungis að því að dreifa þeim stuðningi sem þegar er til staðar á jafnari hátt.“
SHÍ er ósátt með að framfærslulánum, markmiði og hlutverki sjóðsins eða stjórnar hans sé ekki breytt frá frumvarpsdrögum sumarsins.
„Því stefnir ekki í að breytingar verði á högum stúdenta meðan námi stendur. Til þess að stúdentar eigi kost á því að klára nám á réttum tíma og njóta góðs af 30% niðurfellingu höfuðstóls við námslok verður að tryggja möguleika þeirra á að framfleyta sér á námstíma. Stúdentaráð leggur til að fjárfesting í menntun verði leiðarljós þingsins við meðferð þessa frumvarps. Þeir milljarðar sem kerfið skilar ríkissjóði ár hvert skuli renna aftur í námslánakerfið og tryggja fyrirsjáanleika fyrir greiðendur námslána svo vaxtastig verði ekki án hámarks. Umfram það vísar Stúdentaráð til umsagnar ráðsins við Menntasjóð námsmanna, dags. 5. nóvember 2019, sem finna má á student.is.“