Forseti Íslands fór í 39 utanlandsferðir á tímabilinu 1. janúar 2016 til 17. október 2019 og eru ferðirnar kolefnisjafnaðar. Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, um utanlandsferðir á vegum embættis forseta.
Á sama tímabili fóru yfirstjórnendur embættis forseta Íslands í 43 ferðir, oftast sem fylgdarmenn forseta í embættisferðum hans en einnig m.a. í undanfaraferðir, þ.e. undirbúningsferðir vegna opinberra heimsókna forsetans. Á þessu tímabili fóru almennir starfsmenn embættisins í 15 ferðir, oftast sem fylgdarmenn forseta en stundum til að sækja námskeið eða til að undirbúa heimsóknir forseta.
Fram kemur í svarinu að fyllt hafi verið upp í skurði sem grafnir voru um miðja síðustu öld, mýrar endurheimtar og þannig unnið að nauðsynlegri kolefnisjöfnun, m.a. vegna ferða forseta.
Einnig hafa ýmsar trjátegundir og plöntur verið gróðursettar í sama augnamiði, m.a. brekkuvíðir og alaskavíðir, ýmis barrtré og reynitré. Þá er lífrænum áburði dreift á mela til að auka líkur á að gróður festi þar rætur. Í öllum þessum aðgerðum er líffræðilegur fjölbreytileiki ætíð hafður að leiðarljósi.