Eldsvoði á Akureyri

Lögreglan og slökkvilið Akureyrar voru kölluð út vegna eldsins um …
Lögreglan og slökkvilið Akureyrar voru kölluð út vegna eldsins um hálftvö í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynnt var um eldsvoða í gömlu húsi í Sandgerðisbótinni á Akureyri um hálftvö í nótt. Tvær manneskjur voru í húsinu en þær komu sér út af sjálfsdáðum og tilkynntu um eldinn til Neyðarlínunnar.

Að sögn Sigurðar Sigurðssonar, varðstjóra í lögreglunni á Norðurlandi eystra, kom eldurinn upp á jarðhæð hússins en íbúi á þeirri hæð var að heiman þegar íbúar á efri hæð urðu eldsins varir. 

Um gamalt hús í eigu bæjarins er að ræða en það var byggt árið 1898, og búa þar skjólstæðingar Akureyrarbæjar. Húsið er á tveimur hæðum auk kjallara. 

Sigurður segir að ekki hafi verið um mikinn eld að ræða en talsvert bras að slökkva meðal annars vegna einangrunar hússins. Slökkvistarfi lauk um hálffimm og er lögreglan enn með vakt við húsið. Talsverðar skemmdir eru á húsinu og ekki er vitað um eldsupptök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert