Selja ríkinu ráðgjöf fyrir tugi milljóna

Vinnueftirlitið fylgist með aðbúnaði á byggingarvinnustöðum.
Vinnueftirlitið fylgist með aðbúnaði á byggingarvinnustöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðgjafarfyrirtækið Attentus hefur selt ríkisstofnunum ráðgjöf og þjónustu fyrir vel á fimmta tug milljóna síðan í september í fyrra.

Meðal viðskiptavina fyrirtækisins er Vinnueftirlitið, en það hefur leigt af því mannauðsstjóra.

Fram hefur komið að sá sem fyrst gegndi stöðu mannauðsstjóra var látinn hætta vegna meintrar óánægju með framgöngu hans.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, framgöngu mannsins til rannsóknar. Utanaðkomandi aðilar hafi verið fengnir í málið til að annast hlutlausa málsmeðferð.

Hanna segir samstarf við Attentus mannauð og ráðgjöf hafa skilað miklum árangri. Ráðgjöf Attentus nýtist við endurskipulagningu og við gerð nýrrar stefnumótunar.

Fjallað hefur verið um Vinnueftirlitið í fjölmiðlum síðustu daga en tilefnið er m.a. að ráðgjafi Attentus hætti störfum hjá eftirlitinu. Ástæðan var sögð meintur dónaskapur í garð starfsmanna eftirlitsins.

Ekki fékkst upplýst hvaða ráðgjafi hætti eða hvaða ráðgjafi tók við af honum. Þá óskaði Hanna eftir spurningum skriflega.

Á vefsíðunni opnirreikningar.is má finna upplýsingar um viðskipti ríkisstofnana við einstaka aðila. Athugun á viðskiptum ríkisstofnana við Attentus-Mannauð og ráð ehf. bendir til að þau hafi numið 44,5 milljónum króna frá því í september 2018. Þar af nema viðskipti við umhverfis- og auðlindaráðuneytið 16,3 milljónum króna og er það langstærsti viðskiptavinurinn.

Fimm félög áttu hvert um sig 20% hlutafjár í Attentus. Stjórnarmenn í félaginu voru Árný Elíasdóttir, Sigríður Þorgeirsdóttir, Guðríður Sigurðardóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Ingunn Björk Vilhelmsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert