Sveinn lýsti sig saklausan í heimaslátrunarmáli

„Þótt sakamálið sem slíkt snúist um meintan glæp, þá snýst …
„Þótt sakamálið sem slíkt snúist um meintan glæp, þá snýst málið í heild sinni um miklu stærri mynd – hvaða möguleika bændur hafi til þess að skapa verðmæti og byggðaþróun í samhengi við það,“ segir Sveinn. Á myndinni eru skagfirskar kindur. mbl.is/Eggert

„Ég tel mig saklausan af þessari ákæru,“ segir Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís, sem í gær kom fyrir dóm í Héraðsdómi Norðurlands vestra og lýsti þeirri afstöðu sinni við þingfestingu máls sem lögreglustjórinn í umdæminu hefur höfðað á hendur honum fyrir brot gegn lögum um slátrun og sláturafurðir.

Sveinn segir í samtali við mbl.is að hann muni leggja fram greinargerð með afstöðu sinni til málsins við næstu fyrirtöku þess, sem ráðgert er að fari fram 26. nóvember.

Sveinn er ákærður fyrir að hafa staðið að sölu og dreifingu á fersku lambakjöti af gripum sem hafði verið slátrað utan löggilts sláturhúss, en um var að ræða lambakjöt frá bænum Birkihlíð, þar sem lömbum hafði verið slátrað í samstarfi við Matís í samræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um örsláturhús. Kjötið var selt á bændamarkaði á Hofsósi.

Snýst um möguleika bænda til verðmætasköpunar

Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís.
Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís. mbl.is

„Mér finnst mikilvægt að hafa stóru myndina í huga. Þótt sakamálið sem slíkt snúist um meintan glæp, þá snýst málið í heild sinni um miklu stærri mynd – hvaða möguleika bændur hafi til þess að skapa verðmæti og byggðaþróun í samhengi við það,“ segir Sveinn.

Hann segir aðspurður að ýmsir hafi komið að máli við hann eftir að ákæra var gefin út á hendur honum í októbermánuði.

„Flestir þeir sem tala við mig eru nokkuð undrandi á málatilbúnaði, að það sé gengið þetta langt með þetta mál og það eru sjónarmið sem koma til mín um að það sé mikilvægt að lagarammi og eftirlitskerfi með lagarammanum séu í takti við tímann. Það eru auðvitað miklar áskoranir sem við erum að horfast í augu við, bæði varðandi byggðaþróun og umhverfismál.

Það er mjög breytt neysluhegðun á matvælamarkaði þar sem er aukin eftirspurn eftir vörum þar sem er alveg skýr uppruni og aukin eftirspurn eftir samtali við bændur. Það eru margir sem sjá þetta sem mikilvægt skref í þeirri vegferð fyrir bændur og þá neytendur á sama tíma í rauninni, að hafa meira val á markaði og geta tekið upplýstari ákvörðun um sín kaup,“ segir Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert